Erlent

Áhrif karlhormónsskorts á akstur

Þýskir vísindamenn segjast hafa sannanir fyrir því að það sé skortur á karlhormónum sem valdi því að konur geti ekki lagt bílum í stæði. Það eru sjálfsagt ekki allar konur sammála því að þær geti ekki lagt bílum í stæði en það eru þýsku vísindamennirnir sem verða að svara fyrir þá fullyrðingu. Þeir segja að rannsóknir þeirra sýni að konur fái lítið af karlhormónum í móðurkviði og það kunni að skýra hvers vegna rúmskynjun þeirra sé ekki jafn næm og karla. Þjóðverjarnir báru einnig saman lengd baugfingurs og vísifingurs á sjálfboðaliðum sínum og segja að tengsl séu milli lítils magns af karlhormónum og stuttum baugfingri. Baugfingur er yfirleitt lengri en vísifingur hjá körlum en þessir fingur eru yfirleitt jafn langir hjá konum. Vísindamennirnir segja einnig að konum sem voru með lengri baugfingur en vísifingur hafi gengið betur í prófum þeirra en konum sem voru með þá jafn langa. Fréttamaður Stöðvar 2 gerði tilraun á kenningunni í dag með aðstoð tveggja kvenna. Í stuttu máli studdi tilraunin kenninguna. Hægt er að sjá framkvæmd hennar í VefTíVí-inu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×