Erlent

Ásakanir um leynifangelsi trúverðugar

Á fundi Mannréttindanefndarinnar. Að sögn Dicks Marty flutti CIA alla sína fanga frá Evrópu til Marokkó þegar umræður um leynifangelsin komu upp í síðasta mánuði.
Á fundi Mannréttindanefndarinnar. Að sögn Dicks Marty flutti CIA alla sína fanga frá Evrópu til Marokkó þegar umræður um leynifangelsin komu upp í síðasta mánuði.

Dick Marty, öldungadeildarþingmaður frá Sviss, segir í skýrslu sinni fyrir Evrópuráðið að ásakanir um leynifangelsi og fangaflutninga bandarísku leyniþjónustunnar CIA séu trúverðugar. Hann segir þó engin slík fangelsi starfrækt í Evrópu í dag.

Marty kynnti niðurstöður bráðabirgðaskýrslu sinnar fyrir mannréttindanefnd Evrópuráðsins í gær en hann var fenginn til að kanna hvort fótur væri fyrir því að CIA flytti grunaða hryðjuverkamenn um evrópska flugvelli í leynileg fangelsi til yfirheyrslna í trássi við alþjóðalög.

Í skýrslunni segir Marty að "upplýsingar sem safnað hefur verið fram á þennan dag renni stoðum undir trúverðugleika ásakananna um flutninga og tímabundið varðhald einstaklinga, án dóms og laga, í evrópskum ríkjum."

Á blaðamannafundi í kjölfarið sagði Marty telja að engin leynifangelsi væru ennþá starfrækt í álfunni heldur hefði þeim verið lokað í kjölfar frétta af málinu og fangarnir fluttir til Norður-Afríku, að líkindum til Marokkó.

Engin Evrópulönd voru sérstaklega nefnd í skýrslunni. Þar segir samt að "þótt of snemmt sé að staðhæfa að ríkisstjórnir landanna sem í hlut eiga hafi haft vitneskju um eða tekið þátt í ólöglegu athæfi er alvara ásakananna svo mikil og vísbendingarnar svo eindregnar að rétt sé að halda ítarlegri rannsókn áfram."

Marty fer hörðum orðum um bandarísk stjórnvöld í skýrslunni og bendir á að þau hafi aldrei neitað ásökununum. "Skýrsluhöfundur vill lýsa vanþóknun sinni á að Rice gaf engar upplýsingar eða útskýringar um málið í Evrópuför sinni," segir í skýrslunni og er þar átt við Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Rannsókn málsins mun halda áfram og hefur Marty meðal annars farið fram á að fá gervihnattamyndir af tveimur herflugvöllum í Rúmeníu og Póllandi en mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa haldið því fram að þar hafi leynifangelsin verið starfrækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×