Innlent

Segja upp eftir einn mánuð

Margir hjartalæknar eru með stofur í Lækna­setrinu í Mjódd.
Margir hjartalæknar eru með stofur í Lækna­setrinu í Mjódd.

Sjálfstætt starfandi hjartalæknar tóku þá ákvörðun á fundi í fyrradag að fresta uppsögn samnings við Tryggingastofnun ríkisins fram í desember. Þeir höfðu áður ákveðið að segja upp samningnum nú um mánaðamótin. Ástæða þessa er sú að einingakvóti sá sem samningur Tryggingastofnunar og sjálfstætt starfandi hjartalækna kveður á um, dugir ekki fyrir unnum læknisverkum til mánaðamóta.

Það þýðir að læknarnir fá hlut sjúklings greiddan, en ekkert frá Tryggingastofnun eftir að kvótinn er uppurinn. "Hjartalæknar eru afar óánægðir með samninginn og framkvæmd hans," segir Axel Sigurðsson hjartasérfræðingur, sem á sæti í stjórn Félags sjálfstætt starfandi hjartalækna.

"Það er erfitt að sætta sig við að vinna ákveðin verk en fá ekki greitt fyrir þau. Það getur ekki talist eðlilegt. Við getum ekki sinnt þessari þjónustu nema fá borgað fyrir hana." Axel segir að hjartalæknar ætli þó að reyna að þrauka eitthvað áfram í þeirri von að lausn finnist á málinu. Þeir geti þó ekki beðið í margar vikur til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×