Erlent

Betri framtíð innan Kína

"Tíbet er vanþróað land. Það er stórt land og ríkt að náttúruauðlindum en okkur skortir tækni og þekkingu til að nýta þær. Því er það svo að ef við verðum áfram hluti Kína getum við notið góðs af því, að því tilskyldu að Kína taki tillit til menningar okkar og umhverfis og veitir okkur einhverjar tryggingar fyrir því," sagði Dalai Lama í viðtali við tímaritið Time. Í viðtalinu sagði Dalai Lama að mörgum Tíbetum þætti sem hann hefði svikið þá með því að gefa eftir baráttuna fyrir sjálfstæði landsins sem Kínverjar hernámu rúmlega hálfri öld síðan. Hann sagði hins vegar að það væri í þágu Tíbeta sjálfra að vera áfram innan Kína, en þó því aðeins að Kínverjar veittu Tíbetum meiri réttindi en hingað til. "Þrátt fyrir nokkrar framfarir í efnahagslífi og þróun búum við enn við alvarlegar ógnir gagnvart hefðum okkar, trúfrelsi og umhverfinu. Á landsbyggðinni er ástand mennta- og heilbrigðiskerfisins mjög slæmt. Þetta er líkt og hið mikla bil milli ríkra og fátækra í Kína," sagði hann um stöðu mála í Tíbet.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×