Erlent

Forsætisráðherra í stofufangelsi

Herforingjastjórnin í Mjanmar, sem áður gekk undir nafninu Burma, skipti í gær um forsætisráðherra. Herforinginn Soe Win, sem er talinn mikill harðlínumaður tók þá við embættinu af Khin Nyunt, herforingja og yfirmanni leyniþjónustunnar. Nyunt var talinn tiltölulega hófsamur í samanburði við aðra ráðamenn í herforingjastjórninni og vildi meðal annars semja við Aung San Suu Kyi, friðarverðlaunahafa Nóbels, og aðra forystumenn lýðræðissinna í landinu. Talið er að það hafi átt þátt í falli hans en ekki síður það að Than Shwe, valdamesti maðurinn í herstjórninni, var aldrei fyllilega sáttur við Nyunt. Svo virðist sem nokkur átök hafi átt sér stað í kringum valdaskiptin því taílensk stjórnvöld lýstu því yfir í gær, áður en tilkynnt var um mannaskiptin, að Nyunt hefði verið hnepptur í stofufangelsi. Skipan Win í stöðu forsætisráðherra þykir boða enn meiri hörku stjórnvalda gegn lýðræðissinnum. Win er talinn hafa staðið á bak við árás stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar á lýðræðissinna í maí í fyrra. Síðan þá hefur Suu Kyi verið haldið í stofufangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×