Erlent

Á þriðja tug þúsunda látnir

Á þriðja tug þúsunda fórst í náttúruhamförunum í Suðaustur-Asíu í gær og talið er víst að sú tala muni hækka. Björgunarmenn leita þeirra sem komust af og sækja lík upp í tré og á haf út. Aðstæðurnar eru ömurlegar og hætta á frekari hörmungum.  Ekki færri en tuttugu og þrjú þúsund fórust í hamförunum og er jafnvel óttast að talan sé hærri - jafnvel svo skiptir tugum þúsunda. Ljóst er að hún mun hækka á næstu dögum eftir því sem björgunarmenn finna fleiri lík og hægt er að gera grein fyrir afdrifum fleira fólks. Þau lík sem finnast eru þó víða urðuð í skyndingu og því ljóst að líkast til verður aldrei hægt að gera grein fyrir öllum. Lík hafa fundist uppi í trjám og þeirra er leitað á hafi úti, þar sem aldan sópaði öllu með sér út á haf: strandgestum, smábörnum og sjómönnum. Bylgjan jafnaði hús við jörðu, þeytti fiskibátum upp á land og bílum inn um hótelglugga. Það voru ekki síst ung börn sem urðu illa úti enda eiga þau sér enga von þegar þau lenda í vatnselg af þessu tagi. Myndir sem borist hafa í dag sýna tugi ef ekki hundruð líka af litlum börnum og harmi slegna foreldra sem geta engan veginn tekist á við atburðina. Einna verst er ástandið á Srí Lanka þar sem aðrar eins hamfarir hafa aldrei riðið yfir. Yfir tíu þúsund eru sagðir hafa farist þar og talið víst að þeir séu fleiri. Tvö hundruð útlendingar eru á meðal þeirra sem urðu allt að fimmtán metra hárri flóðöldunni að bráð og yfirvöld geta á engan hátt tekist á við vandann. Á Indlandi var ástandið lítið skárra og þar hefur nokkurra eftirskjálfta orðið vart í dag sem komið hafa illa við þá sem eftir lifa. Þar hafa lík verið grafin í fjöldagröfum og þar sem flóðbylgjan var einna öflugust hafa smærri bylgjur valdið usla og gera enn. Þrír af hverjum fjórum sem fórust voru konur og börn. Á Taílandi voru flestir sem fórust erlendir ferðamenn. Hundruð eru sögð hafa týnt lífi þegar draumasumarleyfið breyttist í martröð á augabragði. Danir, Svíar, Svisslendingar, Ástralar, Ítalir, Nýsjálendingur og Bandaríkjamaður eru meðal þeirra sem vitað er að hafi farist þar. Annars staðar hefur verið greint frá því að Bretar, Belgar, Þjóðverjar, Ítalir, Japanar, Suður-Afríkumenn og Taívanar hafi týnt lífi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×