Erlent

Annað ávarp bin Ladens í vikunni

Osama bin Laden hvetur fylgismenn sína og skæruliða til að beina athygli sinni að Írak og árásum á olíuleiðslur og -vinnslustöðvar við Persaflóa, því það valdi Bandaríkjunum mestum skaða. Bin Laden hefur nú sent frá sér tvö ávörp í vikunni til að hvetja skæruliða og hryðjuverkamenn til dáða. Í gærkvöldi birti vefsíða ávarp sem talið er öruggt að sé frá bin Laden. Þar hvetur hann til árása á innviði olíuvinnslu við Persaflóa og í Írak. Hann segir árásir af því tagi vera öflugasta vopnið gegn Bandaríkjunum; þannig megi veikja þau efnahagslega. Olía sé eina ástæða þess að Bandaríkin skipti sér í sífellu af gangi mála í múslímaríkjum og að stoppa verði mesta rán í sögunni. Koma verði í veg fyrir að Bandaríkjamenn komist yfir olíu þessara ríkja. Olíufyrirtæki í Sádi-Arabíu kveðast verða á verði í kjölfar yfirlýsinganna en öryggisgæsla sé nú þegar í hámarki. Íslamskir öfgamenn hafa ítrekað ráðist á olíuvinnslustöðvar í Sádi-Arabíu undanfarið. Bin Laden bar lof á þá sem réðust á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Jedda í Sádi-Arabíu fyrir viku og varaði yfirvöld í landinu við því að hægt væri að bola þeim frá rétt eins og Íranskeisara á sínum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×