Erlent

Hjálparstarfið komið í fullan gang

Hátt í 130 þúsund manns eru nú taldir af eftir hamfarirnar við Indlandshaf á annan í jólum og er talið víst að sú tala eigi eftir að hækka töluvert. Fjöldi flutningabifreiða með matvæli, lyf og líkpoka er nú kominn á hamfarasvæðin og birgðum er kastað úr flugvélum til afskekktra þorpa. Í dag er hjálparstarfið í Asíu komið í fullan gang eftir skrykkjótta byrjun. Risastórar bandarískar herflutningavélar lenda nú hver á eftir annari í Medan-borg á Indónesíu þar sem matvælum, vatni og lyfjum er komið í flutningabíla sem aka eiga með vistirnar til Ache-héraðs þar sem fjöldi látinna er í kringum áttatíu þúsund. Flutningur hjálpargagna til héraðsins hefur verið ómögulegur hingað til vegna braks sem liggur á vegum og brýr hafa sópast burt á mörgum stöðum. Það tekur flutningabílana sextán klukkustundir að komast til Banda Ache, höfuðborgar héraðsins. Ástralskar og nýsjálenskar herflugvélar fljúga beint til borgarinnar með vistir og taka slasaða með sér til baka. Heilbrigðisráðherra Indónesíu segir að líklega séu fleiri en hundrað þúsund látnir í landinu. Tala látinna á Indlandi hefur lækkað úr þrettán þúsund niður í tæp ellefu þúsund eftir að fólk sem talið var af á Andaman- og Nicobar-eyjum fannst heilt á húfi. Kínverjar hafa heitið sextíu milljónum dala til hjálparstarfsins sem reynir á þolrif heimsbyggðarinnar að sögn Kofi Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann hélt blaðamannafund í New York í gær og sagði þar að heimsbyggðin öll yrði að sameinast í hjálparstarfinu. Flóðbylgjan hefur tekið meira en 125 þúsund líf í þrettán löndum. Einn milljón manna er heimilislaus og fimm milljónir manna án lífsnauðsynja. Unicef, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna., segir að björgunargögn sem duga eiga um tvö hundruð þúsund manns séu á leið á hamfarasvæðin. Þriðjungur hinna látnu eru börn og fjöldi þeirra til viðbótar eru nú munaðarlaus. Á Srí Lanka er að minnsta kosti fimm þúsund saknað og 28 þúsund lík fundin og björgunarfólk hefur enn ekki komist til afskekktustu þorpanna. Á Taílandi, þar sem þúsundir líka liggja rotnandi í búddahofum, berast björgunargögn ekki bara til hinna lifandi heldur líka til hinna látnu. Líkpokar í þúsundatali og formalín til að varðveita lík berast nú til Phuket-eyju á Taílandi. Þar óska yfirvöld eftir kæligámum og þurrís. Á sumum svæðum er enn verið að finna lík. Í sumum tilfellum liggja rotnandi mannslík og dýrahræ í vatnsbólum og menga vatnsbirgðir sem eru af mjög skornum skammti. Þetta eru hörmungar á mælikvarða sem á sér vart samanburð. Á Patong-strönd á Phuket-eyju báru nýkomnir breskir ferðamenn á sig sólaráburð í gær og lögðust í sólbað. Sumir þeirra fengu sér sundsprett í sjónum sem tók þúsundir mannslífa fyrir nokkrum dögum. Sölufulltrúi ferðaskrifstofunnar fullvissaði þá um að fríið þeirra yrði dásamlegt, þrátt fyrir allt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×