Erlent

Ellefu Íslendingar enn ófundnir

Talið er að meira en 50 þúsund manns hafi látist í jarðskjálftanum sem átti upptök sín við Súmötru á sunnudaginn. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur að þessi tala geti allt að tvöfaldast vegna sjúkdóma og farsótta. Leitað hefur verið að Íslendingum á sjúkrahúsum á eyjunni Phuket í Taílandi. Utanríkisráðuneytið hefur ekki haft uppi á ellefu manns. Nöfnum og kennitölum þeirra hefur verið komið til taílenskra stjórnvalda og danskra, að sögn Péturs Ásgeirssonar, skrifstofustjóra almennrar skrifstofu utanríkisráðuneytisins. Átta Íslendingar halda enn til á hóteli sínu á Patong-strönd á Phuket. Margrét Þorvaldsdóttir, ein úr hópnum, segir hópinn hafa fundið mikinn hlýhug að heiman. "Við erum öll saman og höldum ró. Við erum mest hér á hótelinu og næsta nágrenni og förum lítið niður í miðbæ," segir Margrét. Þórir Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands, segir tvær formlegar beiðnir hafa borist um aðstoð við leit ættingja landsmanna af erlendum ættum. Önnur í Taílandi, hin á Srí Lanka. Þórir segir ákveðið að starfsmaður Rauða krossins fari til Srí Lanka á næstu dögum til almennra hjálparstarfa. Aldrei í sögunni hefur jafn umfangsmikilli neyðaraðstoð verið hrundið í framkvæmd og nú í kjölfar náttúruhamfaranna við Bengalflóa. Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, segir mikilvægast á þessari stundu að útvega mat og skjól og koma í veg fyrir sjúkdóma. Erfitt sé hins vegar að bregðast við á áhrifaríkan hátt því að hamfarasvæðið er gríðarlega stórt. Jarðskjálftinn á sunnudaginn er eins og staðan er í dag níundi mannskæðasti jarðskjálftinn frá því árið 1900. Mannskæðasti skjálftinn á síðustu öld varð sumarið 1976 í borginni Tangshan í norðausturhluta Kína. Þá létust um 255 þúsund manns í jarðskjálfta sem mældist 7,5 á Richter-skala. Mannskæðasti jarðskjálfti mannkynssögunnar varð hins vegar 23. janúar árið 1556. Talið er að um 830 þúsund manns hafi látið lífið í jarðskjálftanum sem skók héraðið Shensi í Kína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×