Erlent

Brýnt að bæta samskipti við Rússa

Viktor Júsjenko, sigurvegari forsetakosninganna í Úkraínu, segir að sitt fyrsta verk sem forseti landsins verði að fara til Moskvu og reyna að bæta samskipti Úkraínu og Rússlands. Júsjenko segir að samskipti ríkjanna hafi verið "afmynduð" af úkraínskum viðskiptaklíkum. Í gær var lokið við að telja atkvæðin og var Júsjenko með tæp 52 prósent atkvæða en mótframbjóðandi hans, Viktor Janúkovitsj með rúm 44 prósent. Janúkovitsj situr þó enn við sinn keip og neitar að viðurkenna sigur Júsjenkos og segist munu kæra úrslitin til Hæstaréttar. Evrópuráðið hefur hvatt Janúkovitsj til að viðurkenna sigur Júsjenkos.Búist er við endanlegum tölum á föstudag. Klofningur Úkraínu í austur og vestur hefur gleikkað enn frekar í kosningabaráttunni, en Janúkovitsj naut mikils stuðnings í austri þar sem almenningur talar rússnesku, en Júsjenko nýtur velvildar Vesturlanda. Vladimir Pútin Rússlandsforseti studdi ötullega við bakið á Janúkovitsj í kosningunum og viðurkenndi hann sem löglegan sigurvegara fyrri kosninganna í nóvember sem dæmdar voru ólöglegar. Pútin mun vera uggandi vegna stækkunar Evrópusambandsins og NATO í austurátt. Rússland á miklar fjárfestingar í Úkraínu og landið er stór markaður fyrir rússneskan neysluvarning. Júsjenko segir það fyrir öllu að ríkin bæti samskiptin sín á milli enda séu þau nágrannar og deili að miklu leyti sömu menningu og sögu. Hann segir að viðskiptaklíkur í Úkraínu hafi brenglað samskipti ríkjanna og þær hafi verið farnar að mynda vísi að fámennisstjórn auðmanna. Júsjenko telur þó erfitt að styrkja tengsl ríkjanna efnahagslega séð á meðan það eru ekki samræmdar reglugerðir í tolla- og skattastefnum. Þá hyggst Júsjenko styrkja tengslin við Vesturlönd meðal annars með því að auka ábyrgð Úkraínu innan ESB með það að markmiði að geta sótt um aðild að sambandinu eftir þrjú til fimm ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×