Erlent

Tala látinna komin í 60 þúsund

Sextíu þúsund manns hafa fundist látnir eftir flóðbylgjuna í Suðaustur-Asíu. Óttast er að jafnmargir eða fleiri kunni að látast af völdum smitsjúkdóma vegna hörmunganna. Einna verst var ástandið í dag á Srí Lanka þar sem ekki færri en nítján þúsund hafa farist. Helen Ólafsdóttir, sem starfar þar fyrir íslensku friðargæsluna, segir eyjaskeggja aldrei hafa séð annað einsog þó hafi þeir átt í 20 ára stríði. Nú er unnið hörðum höndum að því að safna saman líkum því óttast er að farsóttir breiðist út. Tala látinna á Srí Lanka hefur vaxið frá 12 þúsundum upp í 18 þúsund í dag og mun jafnvel hækka enn að sögn Helenar.   Sjálf var Helen í hættu því hún var í sólbaði á ströndinni þegar aldan kom á fleygiferð. Hún segir að henni hafi fyrst fundist einkennilegt hvað aldan hafi náð langt og hélt að um væri að ræða einungis eina staka öldu. Svo þegar allt virtist ætla að fara á kaf tók hún og samferðafólk hennar til fótanna. Allt að milljón Srí-Lankamenn missti heimili sín í hamförunum sem léku alla austurströnd eyjunnar mjög grátt. Á Indlandi er ástandið lítið betra; þar er talið að um tólf þúsund hafi farist og lítið er vitað um afdrif um þrjátíu þúsund íbúa á eyjunum Andaman og Nicobar sem eru ekki langt frá miðju skjálftans. Stafðest hefur verið að sjö þúsund eru þar látnir. Á Indónesíu telur varaforseti landsins töluna vera á milli tuttugu og tuttugu og fimm þúsund. Þegar hefur verið staðfest að í kringum nítján þúsund hafi týnt þar lífi og sífellt fleiri látnir finnast eftir því sem björgunarsveitir komast nær hamfarasvæðinu. Staðfest er að yfir eitt hundrað þúsund manns eru slasaðir í Indónesíu. Á Taílandi hafa um fimmtán hundruð fundist látnir, þar af eru ekki færri en sjö hundruð erlendir ferðamenn. Í ferðamannabænum Khao Lak á Phuket-eyju eru tugir líka enn á víð og dreif á götum, í trjám og á floti í vatni. Phuket og eyjan Phi Phi eru sagðar hafa nánast jafnast við jörðu en þar voru einnig þúsundir, einkum evrópskra ferðamanna. Á Malasíu, Maldíveyjum, Sómalíu, Tansaníu og eyjunni Myanmar hafa tugir látist og nokkrir fórust á Bangladesh og í Keníu. Talsmenn alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar óttast að tugir þúsunda muni látast af völdum smitsjúkdóma í kjölfar hörmunganna. Jafnvel er talið að fleiri muni látast af þeim sökum en þegar hafa látist vegna flóðanna. Fjárhagslegt tjón vegna hamfaranna er ekki talið minna en eitt þúsund milljarðar íslenskra króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×