Erlent

Óttast að 55.000 hafi látist

Staðfest hefur verið að 36.900 fórust í hamförunum í Suðaustur-Asíu á sunnudag. Tuga þúsunda er saknað og óttast er að ekki færri en 55.000 hafi farist. Ákaflega erfitt er að meta hversu margir fórust þegar flóðbylgja skall á í kjölfar öflugs jarðskjálfta á sunnudag en talan hefur hækkað mikið í morgun. Fyrir stundu greindu yfirvöld á Srí Lanka frá því að tala látinna væri komin upp í 18.700 og þar er talið að endanlega tala verði ekki lægri en tuttugu og fimm þúsund. Suður- og austurstrendur landsins eru nánast þaktar aur, líkum og rústum. Á suðausturströnd Indlands þar sem ástandið er afar slæmt er óttast að tugir þúsunda hafi látist og ekkert er vitað um afdrif um þrjátíu þúsund íbúa á eyjunum Andaman og Nicobar sem eru ekki langt frá miðju skjálftans. Sem stendur er opinber tala þeirra sem týndu lífi tæplega 9.500. Á Indónesíu telur varaforseti landsins töluna vera á milli 20.000 og 25.000 en fram til þessa hefur verið staðfest að ríflega 4.700 fórust þar. Sífellt fleiri látnir finnast eftir því sem björgunarsveitir komast nær hamfarasvæðinu. Á Taílandi hafa um fimmtán hundruð fundist látnir, þar af eru ekki færri en sjöhundruð erlendir ferðamenn. Í ferðamannabænum Khao Lak á Phuket-eyju eru tugir líka enn á víð og dreif á götum, í trjám og á floti í vetni. Phuket og eyjan Phi Phi eru sagðar hafa nánast jafnast við jörðu en þar voru einnig þúsundir ferðamanna, einkum evrópskra. Nú er talið að fjöldi þeirra sem fórst geti náð 55.000 áður en yfir líkur. Sögurnar sem berast eru skelfilegar: fregnir berast af fólki sem gekk ásamt börnunum sínum eftir ströndum þegar aldan hrifsaði börnin til sín en skildi foreldrana eftir; fólk sópaðist á haf út úr dyragættum heimila sinna og heilu þorpin hurfu. Stærsta hjálparaðgerð sögunnar stendur nú yfir í löndunum sem urðu fyrir barðinu á flóðbylgjunni. Hundruð björgunarskipa, flugvéla og þyrla flytja eftirlifendur á brott frá helstu stöðunum sem bylgjan lék grátt. Yfirmaður neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna, Jan Egelund, telur kostnaðinn hlaupa á milljörðum dollara, hundruð milljarða króna. Hamfarirnar séu einhverjar þær mestu í sögunni sökum þess hversi víðfemt svæði varð fyrir bylgjunni og hversu mörg lönd hörmungarnar snerta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×