Erlent

Tugir manna handteknir

Yfirvöld í Írak hafa brugðist hart við sjálfsmorðsárásunum tveimur sem urðu sextíu manns að bana í gær. Tugir manna hafa verið handteknir og allt er gert til að reyna að koma í veg fyrir hefndarárásir. Talið er víst að árásirnar tvær í Kerbala og Najaf í gær hafi verið að undirlagi öfgasinnaðra Súnní múslima. Tilgangurinn er að etja saman tveimur stærstu trúarhópum landsins, Súnní- og Shíta múslimum í þeirri von að efna til borgarastyrjaldar í landinu og stefna þannig fyrirhuguðum þingkosningum í janúar í uppnám. Trúarleiðtogar Shíta hafa biðlað til sinna fylgismanna um að sýna stillingu og hefna ekki þessara árása enda myndi það spila beint upp í hendur öfgamannanna. Að minnsta kosti fimmtíu manns hafa verið teknir höndum í kjölfar þessara árása í gær. Yfir 100 stjórnmálaflokkar hafa þegar skráð sig til þátttöku í kosningunum þann 30. janúar. Búist er við auknu ofbeldi og upplausn í landinu á næstu vikum eða allt fram til kosninga. George Bush Bandaríkjaforseti segist gera sér grein fyrir því að kosningarnar gangi varla þrautalaust fyrir sig, en hins vegar sé hann sannfærður um að kosningarnar fari fram og lýðræði muni ná fram að ganga í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×