Erlent

Segja Musharraf svíkja loforð

Um það bil fjögur þúsund manns mótmæltu á götum Rawalpindi í Pakistan fyrirætlunum Pervez Musharraf forseta um að sitja áfram sem yfirmaður heraflans, en hann hafði áður lofað að láta af stjórn hans nú í árslok. Mótmælin voru ein af mörgum sem samtök sex stjórnmálaflokka islamskra harðlínumanna hafa staðið fyrir undanfarna daga. Mótmælendurnir sungu að almenningur í Pakistan væri orðinn fullsaddur á því að sjá forsetann klæddan í herbúning. Bækistöðvar pakistanska hersins eru í Rawalpindi og tvisvar var reynt að ráða Musharraf af dögum í borginni fyrir ári síðan. Musharraf samdi við samtök nokkurra stjórnmálaflokka í fyrra og lofaði að láta af stöðu sinni sem yfirmaður hersins á gamlársdegi í ár en í staðinn myndu samtökin styðja að völd hans sem forseti yrðu aukin. Undangengna mánuði hefur Musharraf hins vegar dregið í land og sagt að það sé nauðsynlegt að hann sé yfir hernum til að viðhalda stöðugleika í landinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×