Erlent

Landamæri ESB að Írak og Íran?

Landamæri Evrópusambandsins munu liggja að Írak, Íran og Sýrlandi ljúki aðildarviðræðum við Tyrki með því að þeir gangi inn í sambandið. Ýmis ljón eru þó í veginum og efasemdir báðum megin borðsins. Ýmis skilyrði voru sett sem Tyrkir verða að uppfylla áður en viðræður geta hafist. Þau snúa ekki síst að eynni Kýpur. Nokkuð óljóst skilyrði má skilja sem svo að Tyrkir viðurkenni stjórnvöld á gríska hluta eyjarinnar en síðdegis áréttaði Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, þá skoðun sína að engin viðurkenning fælist í yfirlýsingu sem undirrituð var. Þó að Kýpur sé það sem stendur í hálsinum á tyrkneskum stjórnmálamönnum og almenningi er ljóst að það er ekki erfiðasti bitinn. Tyrkjum stendur til að mynda líklega ekki til boða full aðild að innri markaðinum hvað frjálst flæði vinnuafls ræðir, þar sem margar Evrópuþjóðir óttast flóðbylgju ódýrs vinnuafls. Að auki ríkja efasemdir eða fordómar gagnvart aðild Tyrkja víða í álfunni þar sem litið er svo á að Tyrkland tilheyri alls ekki Evrópu, hvorki landfræðilega né menningarlega. Tyrkland er líka stórt, fátækt múslímaríki, nokkuð sem vekur ugg í brjósti sumra evrópskra stjórnmálamanna. Stuðningsmenn aðildar Tyrklands, einkum Bretar og Þjóðverjar, segja hins vegar rétt að bjóða Tyrki velkomna í fjölskylduna; það sé tákn umburðarlyndis og sendi múslímaríkjum merki um vinsemd í vestri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×