Erlent

Ætlar að bjóða sig fram á ný

David Blunkett, innanríkisráðherra Bretlands, sem sagði af sér í gær, ætlar að bjóða sig fram á ný í næstu kosningum. Blunkett naut mikils trausts Blairs forsætisráðherra, og þykir afsögnin mikið áfall fyrir hann. Blunkett var með valdameiri ráðherrum stjórnar Blairs. Afsögn Blunketts í gær kom í kjölfar ásakana um að hann hefði beitt sér fyrir því að barnfóstra fyrrum ástkonu hans fengi landvistarleyfi með hraði. Að auki voru safaríkar fréttir af einkalífi Blunketts áberandi á síðum breskra dagblaða, en ástkonan var gift og telur Blunkett sig föður tveggja ára sonar hennar og barns sem hún ber undir belti. Hefur hann höfðað faðernismál. Blunkett segist ekki hafa sagt af sér vegna máls barnfóstrunnar, enda hafi komið í ljós að ekkert væri hæft í ásökunum um að hann hefði gert eitthvað rangt í þeim efnum. Hinsvegar hefði hann séð að faðernismálið myndi skaða stjórnmálaferil hans, og því ákveðið að gefa embættið frekar upp á bátinn heldur en börnin tvö. Hann segist ætla að bjóða sig fram á ný í næstu kosningum. Brotthvarf Blunketts kom ekki sérstaklega á óvart og segja fréttaskýrendur að hann hafi sagt af sér til þess að verða ekki rekinn. Þrátt fyrir það þykir afsögnin slæm tíðindi fyrir Tony Blair sem skipaði menntamálaráðherrann Charles Clarke í stöðu innanríkisráðherra í gærkvöldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×