Erlent

Barnæskan hörmuleg lífsreynsla

Barnæskan er hörmuleg lífsreynsla fyrir helming barna á jörðinni. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Milljarður barna vex úr grasi í skugga hungurs, samkvæmt úttekt UNICEF sem birti í dag tíundu ársskýrslu um stöðu barna í heiminum. Það þýðir að annað hvert barn í heiminum er hungrað. Hálfur milljarður barna hefur ekki aðgang að hreinlætisaðstöðu og 400 milljónir barna hafa ekki aðgang að hreinu vatni. 270 milljónir hafa engan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Það kann að hljóma eins og það séu einingus börn í þróunarlöndum sem búa við bágar aðstæður, en svo er ekki. Í ellefu af fimmtán iðnríkjum sem könnuð voru kom í ljós að hlutfall þeirra barna sem óx úr grasi á heimilum með lágmarkstekjur hafði hækkað síðasta áratug. Stríð hafa mikil áhrif á börn og svo virðist sem þau njóti ekki lengur þeirrar friðhelgi sem áður þótti sjálfsögð. Þau eru skotmörk, þeim er nauðgað og þau eru fórnarlömb stríðsglæpa. Börn eru þvinguð í hermennsku og af þeim sem fallið hafa í stríðsátökum undanfarinn áratug er helmingurinn börn. Alnæmisfaraldurinn hefur einnig víðtæk áhrif á börn. Fimmtán milljónir barna eru munaðarleysingjar þar sem foreldrarnir létust úr alnæmi og oftar en ekki eru börnin sjálf smituð og eiga sér litla von. Fimmtán ár eru frá því að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður en flest lönd heims undirrituðu sáttmálann. Ekki hefur verið staðið við skuldbindingarnar sem í honum felast og í skýrslu Barnahjálparinnar er fullyrt að þetta getið skaðað börn til frambúðar og hamlað mannréttindum og efnahagslegum framförum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×