Innlent

Náttúruverndarsinnar fengu sitt

Kísilverksmiðjunni við Mývatn var lokað í dag. Tugir starfsmanna standa eftir atvinnulausir og gætu þurft að hrökklast úr byggðarlaginu. Sveitarstjóri Skútustaðahrepps segir að rekja megi ástæðu lokunarinnar til þrýstings náttúruverndarsinna. Af 40 starfsmönnum verksmiðjunnar voru 35 atvinnulausir að vinnudegi loknum. Sumir þeirra hafa starfað þar frá því framleiðsla hófst, eða í 37 ár. Síðasti kísilgúrpokinn rann af færibandinu í gær og í kjölfarið slökkt á ofnum og öðrum tækjum og tólum. Starfsmenn vörðu síðasta vinnudeginum í að þrífa og ganga frá. Matseljan Sigfríður Steingrímsdóttir, sem um árabil hefur verið við völd í matsalnum, reyndi að gera vel við sína menn, tæmdi frystinn og steikti grísakótilettur, enda verða máltíðirnar ekki fleiri á þeim bænum. Þótt aðdragandi lokunarinnar sé þónokkur var hljóðið þungt í starfsfólkinu. Sigfríður matselja segir þetta hafa orðið raunverulegt í gær þegar fólk horfði á eftir síðasta farminum renna út úr skemmunni. Hún segist ekki vita hvað taki við hjá sér og ætlar bara að taka því rólega fram yfir áramót. Finnur Baldursson, starfsmaður Kísilverksmiðjunnar, segir mjög sárt að skilja við verksmiðjuna því hann bjóst við að ljúka þarna ævistarfinu. Hann hefur unnið á staðnum síðan 1969 fyrir utan 2 1/2 árs hlé. Samstarfsmaður Finns, Jón Ferdinandsson, segist ekki vita hvað taki nú við en hann ætlar að sækja um vinnu á Reyðarfirði. Síðdegis aðstoðuðu fulltrúar frá Svæðismiðlun Norðurlands eystra starfsmennina við að skrá sig atvinnulausa en telja má á fingrum annarrar handa þá sem þegar hafa tryggt sér vinnu. Flestir hinna yngri í hópnum horfa til Reyðafjarðar með atvinnu í huga en fæstir vilja flytjast frá svæðinu. Þorpið Reykjahlíð hefur byggst í kringum starfsemi Kísilverksmiðjunnar þar sem er leikskóli, grunnskóli og heilsugæsla. Óvíst er um framhaldið nema atvinnulíf taki að glæðast - annars gæti fólk þurft að hrökklast frá verðlausum fasteignum. Starfsemi Kísilverksmiðjunnar hefur verið arðbær en segja má að aðdragandi lokunarinnar hafi verið sá að bandarískt fyrirtæki, sem hefur ráðandi markaðsstöðu á heimsvísu á sölu kísilgúrs, ákvað að óþarft væri að stunda námastarfsemi í Mývatni þar eð hægt væri að auka framleiðslu á kísil úr uppþornuðum stöðuvötnum.  Sigbjörn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir þrýsting frá náttúruverndarsinnum hafa haft mikið að segja í því sambandi. Hann segir andstöðu við starfsemi verksmiðjunnar hafa flýtt fyrir því að hún lagðist af, og þá á hann ekki aðeins við andstöðu heima fyrir sem hann segir reyndar takmarkaðri en oft hafi verið haldið fram. „En það er fólk víða um land sem haft hefur horn í síðu þessarar starfsemi, með röngu að mínu mati,“ segir Sigbjörn. Finnur Baldursson, sem hefur einna lengstan starfsaldur við Kísilverksmiðjunna, á lokaorðin - og það í bundnu máli:  Kísiliðjan andann gaf upp í dag því miður, mjög því lotin mædd við staf Mývatnssveit sig styður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×