Innlent

Eiga ekki fyrir skuldum

Samband Íslenskra sveitarfélaga hélt aukaaðalfund sinn í gær. Auk umræðna um lagabreytingar fóru þar fram umræður um tekjustofna sveitarfélaga. Árni Magnússon félagsmálaráðherra sagði á fundinum að rétt sé að fram fari skoðun á þeim sveitarfélögum sem standa höllum fæti fjárhagslega. Margar ástæður geti valdið slæmri afkomu sveitarfélaga, eins og fjárfestingar, fólksfækkun, breytingar á atvinnulífi og fleira. Bág fjárhagsstaða sveitarfélaga sé að sumu leyti byggðavandi og tekjustofnanefnd á sérstaklega að taka á þessum vanda sveitarfélaganna. Það munu þau til dæmis gera með því að eiga aðkomu að því að ákveða úthlutun 400 milljóna króna viðbótarframlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ríkið mun þó ekki koma eitt að því að bjarga sveitarfélögum, þau "verða því einnig að líta í eigin barm þegar rætt er um bága fjárhagsstöðu þeirra og kanna hvað veldur því að útgjöld þeirra vaxi hraðar en tekjur," sagði Árni í ræðu sinni. Skuldir sveitarfélaga Samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2003, skulda sveitasjóðir sveitarfélaganna nú tæpa 80 milljarða, þar af eru skuldir Reykjavíkurborgar rúmir 20 milljarðar. Hver íbúi skuldar því um 217.000 kr. að meðaltali. Eignir sveitarfélaganna eru um 205 milljarðar, sem standa því undir skuldunum. Taka þarf þó tillit til þess að þar er stærstur hluti eigna varanlegir rekstrarfjármunir sem felast til dæmis í byggingum, stærri vélum og öðru sem hægt er að afskrifa. Þó svo að þetta séu eignir gætu sveitarfélög til dæmis átt í vandræðum með að selja margar þessara eigna, eins og skólabyggingar, ef í harðbakkann slær. Á síðasta ári var tap á rekstri sveitarfélaga um 2,8 milljarðar. Hlutur Reykjavíkurborgar er þar 1,2 milljarðar. Það var 71 sveitarfélag sem skilaði tapi á rekstri, og er þá ekki tekið tillit til nokkurra lítilla sveitarfélaga sem höfðu ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2003. Af þessum sveitarfélögum eru það þrjú sem skera sig úr hvað varðar taprekstur; Fjarðabyggð með tæpar 285 milljónir, Hafnarfjarðarbær með rúmar 208 milljónir og Sveitarfélagið Skagafjörður með rúmar 185 milljónir. Skuldug sveitarfélög Nokkur sveitarfélög skera sig úr, hvað varðar skuldir. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skrifaði meðal annars bréf nú í október til þeirra sem nefndin telur að helst þurfi að hafa áhyggjur af. Hjá þeim sveitarfélögum, auk þeirra sveitarfélaga sem sýndu veruleg frávik frá fjárhagsáætlun ársins 2003, var óskað eftir upplýsingum um þróun fjármála í samanburði við fjárhagsáætlun núverandi árs og/eða upplýsingum um hvernig sveitarstjórnir ætli að bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Sveitarfélögin fengu tvo mánuði til að svara erindinu og reiknar eftirlitsnefndin með að hafa fjallað um öll svör um miðjan desember. Það hefur verið stefna eftirlitsnefndarinnar að gefa ekki upp af hverju haft er samband við sveitarfélög vegna fjármála þeirra, en út frá ársreikningum þeirra er hægt að sjá ýmis hættumerki. Skuldir nokkurra sveitarfélaga eru vel yfir 100 prósentum af hlutfalli tekna. Skuldir Þórhafnarhrepps eru þar mestar, eða 191,8 prósent af tekjum. Sveitarfélagið hefur 400 íbúa og skuldar hvert þeirra að meðaltali 850 þúsund krónur. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Þórshafnarhrepps, segir skuldirnar verða til því að sveitarfélagið sé að byggja upp þjónustu og skapar með því verulegar eignir. "Greiðslustaðan hefur verið góð og sveitarfélagið hefur staðið undir sínum skuldbindingum," segir Björn. Hann nefnir sérstaklega að fyrir nokkrum árum hafi verið byggt nýtt og stórt fjölnota íþróttahús. Bygging þess hefur verið metin sem liður í því að spara í félagslegum útgjöldum. Þá hafi sveitarfélagið verið að byggja upp hafnaraðstöðu fyrir hafskip og smábáta, sem sé nauðsynlegt ef pláss eins og Þórshöfn eigi að vera til í framtíðinni. Björn óttast ekki skuldastöðu sveitarfélagsins, þótt há sé, en segir að framundan sé hækkun á rekstrarkostnaði. "Það er ljóst að flest sveitarfélög og við líka verðum að endurskoða okkar þjónustu með tilliti til þess." Þá eru skuldir tæplega 171 prósent af tekjum Vopnafjarðarbæjar og skulda íbúar þar tæplega 601 þúsund hver, að meðaltali. Meiri skuldir en eignir Þá eru þrjú sveitarfélög, Ólafsfjarðarbær, Snæfellsbær og Vestmannaeyjabær með neikvætt eigið fé, sem þýðir að þessi sveitarfélög skulda meira en þau eiga. Verst stendur Ólafsfjarðarbær sem skuldar tæpar 266 milljónir umfram eignir. Vestmannaeyjabær skuldar um 44 milljónir umfram eignir og Snæfellsbær skuldar tæpar 13 milljónir umfram eignir. Það þýðir þó ekki að sveitarfélögin séu orðin gjaldþrota, því það geta sveitarfélög ekki orðið. Miklar skammtímaskuldir Annað sem getur sýnt hættumerki á fjármálum sveitarfélaga er slæmt veltufjárhlutfall. Veltufjárhlutfall er hlutfallið á milli þeirra peninga eða eigna sem sveitarfélagið á og getur breytt í peninga innan árs annars vegar og skammtímaskulda hins vegar. Ef hlutfallið er 1,0 eru peningar sveitarfélagsins jafnir skammtímaskuldum. Mælt er með að hlutfallið sé hærra en einn, því annars eru skammtímaskuldir meiri en tekjur sveitarfélagsins á einu ári. Slíkt getur verið tímabundið vandamál, en ef þetta er viðvarandi ástand hlýtur eftirlitsnefndin að þurfa að grípa til einhverra aðgerða í samráði við sveitarfélögin. Átta sveitarfélög höfðu á síðasta ári slæmt veltufjárhlutfall: Dalvíkurbyggð, Mosfellsbær, Mýrdalshreppur, Ólafsfjarðarbær, Rangárþing ytra, Skútustaðahreppur, Vestmannaeyjabær og Vopnafjarðarhreppur. Ólafsfjarðarbær og Skútustaðahreppur standa einna verst, þar sem hlutfallið á milli peninga og skammtímaskulda er 0,67. Skammtímaskuldir Ólafsfjarðarbæjar eru tæplega 35 milljónum hærri en veltufjármagnið. Skammtímaskuldir Skútustaðahrepps eru tæpum 19 milljónum fram yfir veltufjármagn. Byggðavandi Ein ástæðan sem nefnd er fyrir vaxandi vanda sveitarfélaga er byggðavandi. Í bókun bæjarstjórnarfundar Ólafsfjarðar frá því í september segir að minnkandi tekjur, og því stærri fjárhagsvanda Ólafsfjarðar, megi meðal annars skýra með tekjulækkun sjómanna og fólksfækkun, en íbúum fækkaði þar um tæp fimm prósent á milli áranna 2002 og 2003. Þá hafi framlög Jöfnunarsjóðs dregist saman og gert er ráð fyrir 9 prósenta lægri framlögum á næsta ári. Þrátt fyrir að tekjur sveitarfélags eins og Ólafsfjarðar dragist saman og auki þannig fjárhagsvanda sveitarfélagsins, minnka gjöldin ekki að sama skapi. Enn þarf að halda uppi lögboðinni nærþjónustu, eins og fræðslu- og uppeldismálum, æskulýðs- og íþróttamálum og félagsmálum, þó svo að færri séu í sveitarfélaginu til að standa undir kostnaðinum. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga Til að fámennari sveitarfélög og þau sem hafa litlar tekjur geti staðið undir rekstri lögboðinna sveitarfélaga, fá þau framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Áætlað er að rúmir níu milljarðar verði til úthlutunar úr sjóðnum á næsta ári. Áætlað er að fjögur sveitarfélög fái meira en 200 þúsund á íbúa á næsta ári. Ekkert af þeim 23 sveitarfélögum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga taldi ástæðu til að fá frekari upplýsingar frá er þar á meðal. En Hafnarfjarðarkaupstaður er meðal þeirra sem fá hvað minnst á hvern íbúa. Sveitarfélög geta fengið greitt úr sjóðnum vegna sérstakra verkefna, til tekjujöfnunar ef meðaltekjur sveitarfélagsins eru lágar, til útgjaldajöfnunar ef útgjöld eru mjög há, vegna íbúafækkunar, vegna grunnskóla, vegna sérþarfa fatlaðra nemenda, vegna nýbúafræðslu og vegna sameiningar sveitarfélaga svo eitthvað sé nefnt. Hugsanlegt er að vegna sérþarfa skuldugra sveitarfélaga geti gjaldliðum Jöfnunarsjóðs fjölgað, til dæmis framlög til jöfnunar vaxtagjalda. Hið aukna framlag í Jöfnunarsjóð er þó ekki orðið að veruleika enn, og því nokkuð snemmbært að ákveða hvernig þessum fjármunum verður úthlutað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×