Innlent

Ekki rætt um olíubrennslu

Nemendum í meistaranámi í umhverfisfræði finnst lítið gert úr þeirri staðreynd að rafskautaverksmiðja á Grundartanga brennir sextíu tonnum af olíu á dag samkvæmt upphaflegu umhverfismati. Forsvarsmenn verksmiðjunnar ætla að draga meira en helming úr framleiðslunni vegna aðstæðna á markaði. Fimm nemendur í umhverfisfræðum unnu verkefni um málið og skoðuð meðal annars svör Valgerðar Sverrisdóttir umhverfisráðherra þegar hún var spurð hvort stóriðjukvóti Íslands dygði fyrir þessa verksmiðju. Ráðherrann svaraði sem svo að mengunin frá þessari verksmiðju færi á annan reikning. Það er þó vegna þess að verksmiðjan notar ekki raforku frá virkjunum fallvatna heldur innflutta olíu. Nemarnir telja að þar með sé tekið stórt skref afturábak í umhverfismálum, þegar reist sé verksmiðja sem nýti að stóru leyti innflutta orkugjafa. Þetta sé hinsvegar óþægileg staðreynd sem menn vilji ekki henda á lofti. Helena Ólafsdóttir, nemi í umhverfisfræði, segir undarlegt hve lítið hafi verið minnst á það að verksmiðjan sé knúin olíu. Helena segir að varla hafi verið minnst á þessa staðreynd þrátt fyrir að Ísland vilji staðsetja sig meðal þeirra þjóða sem nota umhverfisvæna orku. Olía teljist ekki til umhverfisvænna orkugjafa. Hún segir ekki koma nógu skýrt fram að með verksmiðjunni aukist losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Eigendur fyrirhugaðrar rafskautaverksmiðju í Katanesi við Hvalfjörð ákváðu fyrir skemmstu að minnka framleiðslugetuna úr 340 þúsund tonnum niður í 140 þúsund tonn þegar Alcoa ákvað að kaupa rafskaut frá verksmiðju Alcoa í Norður Noregi þegar Fjarðaál tekur til starfa 200. Olíubrennslan mun því minnka í samræmi við það. Eftir stendur hinsvegar að Landvernd hefur kært niðurstöðu umhverfismats vegna verksmiðjunnar á Grundartanga og telur hana munu skila meira af krabbameinsvaldandi efnum út í andrúmsloftið en dæmi eru um hérlendis. Þá muni losun gróðurhúsaloftegunda aukast umtalsvert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×