Innlent

Skelfileg mistök?

Sveitarstjórnarmenn hafa gert skelfileg mistök með samningum sínum við kennara, segir Einar Oddur Kristjánsson varaformaður fjárlaganefndar Alþingis. Ríkisstjórnin hafi verið búin að draga þá í land með því að setja deiluna í gerðardóm en þeir hafi sjálfviljugir kosið að fara sér að voða. Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs Kópavogs, segist efast um að samningurinn verði til góðs. Þingmenn deildu hart á Alþingi um nýja kjarasamninga kennara við umræðu um fjáraukalögin og stjórnarandstaðan brást harðlega við gagnrýni á kennara og sagði þá ekki getað borið ábyrgð á verðbólgu sem ríkisstjórnin hefði hrundið af stað. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir samningana skelfileg mistök sem muni hleypa af stað verðbólguskriðunni. Hann segir að kaupmáttaraukningin hverfi þegar verðbólgan fari upp úr öllu valdi. Einar Oddur segir að ríkisstjórnin hafi verið búin að draga sveitastjórnirnar í land. Hann segir að kjaradómur hafi verið settur, sem hafi tryggt að launaþróun kennara yrði sú sama og hjá öðrum. Og Einar Oddur segist vita fyrir víst að aðrar stéttir sigli í kjölfarið en starfsmenn ríkisins geti ekki og megi ekki fá meiri kauphækkanir en fólkið í framleiðslugreinunum. Hann segir starfsmenn ríkisins hafa mun betri lífeyrissjóði en fólk á almennum markaði og það gangi ekki að þeir fái líka mun meiri launahækkanir, slíkt sprengi samfálgið einfaldlega í loft upp. Gunnar Birgisson formaður bæjaráðs Kópavogs segist efast um að samningarnir verði til góðs. Hann segist óttast að afleiðingarnar geti orðið verðbólga, sem verði meiri en kjarabæturnar. Eins beri að huga að því að skuldir heimilanna muni hækka og afborganir sömuleiðis, sem geti leitt af sér skelfingarástand. Allir muni nú vilja meira og verði ekki til innistæða fyrir því, verði afleiðingarnar óðaverðbólga. Hann segist efast um að samningarnir færi í sér aukin lífsgæði fyrir kennara eða þjóðina í heild. Geir H Harde fjármálaráðherra vildi ekki tjá sig um kjarasamninginn við kennara þegar eftir því var leitað. Menntamálaráðherra segir hinsvegar mikilvægast að bjarga skólastarfinu og að það ríki friður í skólunum. Allir ættu að vera sammála um það að góðir kennarar séu nauðsynlegir. Hún segist halda í þá von að stöðugleikanum verði ekki ógnað með þessu, enda megi það ekki gerast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×