Innlent

Davíð ræði Kyoto við Powell

Náttúruverndarsamtök Íslands skoruðu á Davíð Oddsson utanríkisráðherra að ræða skýrslu vísindamanna um loftslagsbreytingar á norðurslóðum við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi þeirra í gær. Í bréfi sem samtökin sendu Davíð segir að mikilvægir áfangar hafi náðst við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Til dæmis takmarki Kyoto-bókunin útblásturinn og hún verði brátt að alþjóðalögum. Hins vegar hafi Bandaríkin ekki staðfest Kyoto-bókunina. Því sé mikilvægt að ríki Norðurskautsráðsins sem staðfest hafa bókunina skori á Bandaríkjastjórn að skerast ekki úr leik. Þess vegna sé mikilvægt að Davíð Oddsson takið málið upp við Colin Powell. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að í umræðum um utanríkismál á Alþingi í síðustu viku hafi Davíð Oddsson tilkynnt að umræður um loftslagsbreytingar séu ekki á formlegri dagskrá fundar hans með Powell. Hins vegar útilokaði hann ekki að taka málið upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×