Innlent

Endurskoða þarf friðarstarfið

"Við látum nota okkur til að hreinsa upp eftir Bandaríkjamenn, þar sem þeir hafa farið sínu fram," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður og þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og telur endurspeglast í árás á íslenska friðargæsluliða í Kabúl að þjóðin sé orðin beinn þátttakandi í styrjöldum sem Bandaríkjamenn heyja. "Auðvitað er manni efst í huga að hugsa til mannanna sem þarna meiddust, en lærdómurinn hlýtur að vera að hyggja að því inn á hvaða braut við erum komin. Ríkisstjórnin hefur nánast í kyrrþey verið að koma á fót íslenskum her sem sinnir hergæslustörfum í Afganistan. Þetta er hin napra staðreynd málsins," segir Ögmundur og furðar sig á að þessari skipan hafi verið komið á án "eðlilegrar lýðræðislegrar umræðu". Ögmundur telur að endurskoða þurfi alla aðkomu þjóðarinnar að friðarstarfi. "Ekki endilega í ljósi þessarar árásar, þótt vissulega sé hún tilefni til að minna okkur á hvernig komið er," segir Ögmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×