Erlent

Grófu um 300 manns í fjöldagröf

Talið er að um 300 lík kúrdískra karla, kvenna og barna sé að finna í fjöldagröf sem fannst í norðurhluta Íraks. Fórnarlömbin eru talin vera fólk sem myrt var þegar Saddam Hussein, fyrrum einræðisherra Íraks, fyrirskipaði herferð gegn Kúrdum á árunum 1987 og 1988. Að sögn Greg Kehoe, Bandaríkjamanns sem starfar á vegum dómstólsins sem á að rétta í máli Saddams Hussein, hafa 120 lík þegar verið grafin upp úr fjöldagröfinni. "Einhver notaði þetta svæði við ákveðnar aðstæður til að flytja lík hingað eða til að koma með fólk hingað og taka það af lífi," sagði hann og sagði verksummerki benda til þess að jarðýtur hefðu verið notaðar til að urða líkin. Meðal þess sem hefur fundist í fjöldagröfinni er móðir sem heldur á kornabarni. Barnið virðist hafa verið skotið í bakið og konan í andlitið. "Þjóðarmorð er tilraun til að útrýma eða fækka meðlimum trúarhóps eða þjóðarbrots," sagði Kelho. "Kúrdar eru augljóslega af öðru þjóðerni en Írakar. Gætu þetta verið þjóðarmorð? Kannski."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×