Innlent

Íslendingar í fararbroddi

Íslendingar eru í fararbroddi í fjarskiptatækni, og búa því yfir einstöku hugviti á því sviði, segir Kenneth Peterson, fyrrum eigandi Norðuráls. Hann hefur nú keypt íslenskt hugvit til að byggja upp breiðbandskerfi á Írlandi. Kenneth Peterson, fyrrverandi áljöfur hér á landi, einbeitir sér nú aðallega að fjarskiptabransanum. Fyrirtæki hans, Columbia Ventures, vinnur nú að fjarskiptauppbyggingu ýmiskonar um allan heim. Hann ætlar að byggja upp hátækni-breiðbandskerfi fyrir starfrænt sjónvarp á Írlandi, og hefur fengið íslenskt fyrirtæki, sem nefnist Industria, til að hanna kerfið og setja það upp. Í forsvari fyrir Industria er Guðjón Már Guðjónsson, sem kenndur var við Oz. Fyrirtækið er eins árs gamalt, með um 60 starfsmenn. Kerfið verður sett upp í hverju einasta húsi í nýju 15 þúsund manna bæjarfélagi sem Írar eru að byggja upp frá grunni. Hvers virði samningurinn er veltur á viðtökunum segir Guðjón. Hann segir að ef tugþúsunda manna markaður náist verði um nokkra milljarða að ræða. Kenneth Peterson segir að íslenskt hugvit hafi orðið fyrir valinu því Íslendingar séu einfaldlega í fararbroddi í fjarskiptamálum. Hann segir að undanfarið hafi hugmyndin um stafrænu borgina verið í skoðun og Reykjavík hafi lengi verið í fylkingarbrjósti, hvað slíkt varðar. Hann telur að fyrirtækið Industria hafi komið sér upp einstakri þekkingu á þessum málefnum og hann hlakkar til samstarfsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×