Innlent

Aldraðir verða best settir

Aldraðir verða ástmegir fjármálaráðherra um miðja öldina, segir Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari sem í dag opinberaði nýja spá um framtíð þjóðarinnar. Að hans mati verða aldraðir best settu þegnar landsins eftir rúm þrjátíu ár, vel stæðir skattgreiðendur og engum háðir. Ásmundur kynnti þessa nýju sýn, sem hann kallar: „Aldraðir: yfirstétt framtíðarinnar," á morgunverðarfundi Tryggingastofnunar. Öldruðum fer fjölgandi, það er staðreynd og hingað til hefur verið óttast að þeir verði þá aukin byrði á þeim sem yngri eru. Af og frá, segir Ásmundur sem bendir á uppbyggingu lífeyriskerfisins og séreignarsparnað sem muni létta af almannatryggingakerfinu. Þá telur hann að aldraðir munu skila meiru til ríkisins en sem samsvarar kostnaði við þjónustu við þá. Hann segir að fari fólk á elliheimili borgi það sjálft fyrir, hingað til hafi fólk hins vegar ekki átt pening til þess, en það muni reytast þegar fram líði stundir og það sama eigi við um hjúkrunarheimilin. Því verði aukningin á kostnaði heilbrigðiskerfisins minni en að menn hafi verið að gera ráð fyrir. Það sem mestu skipti sé að þar sem aldraðir muni hafa meiri pening, í raun svipaðan og þeir sem séu í starfi, muni þeir borga hærri skatta og því verði vöxtur skattgreiðslna þeirra til ríkisins meiri en kostnaðaraukinn. Ólafur Ólafsson, formaður samtaka aldraðra í Reykjavík, segir að gangi þetta eftir verði það mjög ánægjulegt fyrir eldra fólk, þar sem það losi tak stjórnmálamanna á hag eldri borgara Ólafur vill kenna stjórnmálamönnum um að 30% ellilífeyrisþega nái ekki endum saman en samkvæmt kenningum Ásmundar verða aldraðir framtíðarinnar óháðir stjórnmálamönnum þar sem tekjur þeirra verða þegar komnar í hús ef svo má segja. Framtíðin bjarta er þó einungis björt ef hægt er að njóta hennar og þegar kemur að því virðist nútíminn duga ágætlega. Ólöf Konráðsdóttir, ellilífeyrisþegi, segir að við séum afar heppin að eiga hér fínt heilbrigðiskerfi og frábæra lækna, sem finni lausnir á nánast öllum vandamálum. Hún segist þakklát fyrir að vera svo heilbrigð á þessum aldri og segist nánast endurnýjuð, með alls konar varahluti eins og gamli Ford.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×