Innlent

Gagnvirk leiktæki fyrir börn

Stærstu leikfangafyrirtæki veraldar hafa gert samninga við íslenska fyrirtækið 3-PLUS um sölu á gagnvirkum leiktækjum fyrir börn. Fisher Price er þeirra á meðal og viðræður eru einnig hafnar við bandarísku sjónvarpsstöðina Nickelodeon. Fyrirtækið 3-PLUS var stofnað fyrir fjórum árum í kringum hönnun og þróun á leiktæki sem breytir venjulegum DVD spilara í leikjavél fyrir gagnvirka þroskaleiki ætlaða börnum, allt niður í þriggja ára aldur. DVD-kids er einfalt í notkun. Leikjaspjöldum er smellt framan á tækið og þá má fara í ökuferð með þekktum persónum eins og Dodda, læra að lesa og reikna með fílnum Babar, og púsla sér með Múmínálfunum. Nú þegar hafa verið gefnir út fjórtán leikir á átta tungumálum og fleiri eru í vinnslu, þeirra á meðal íslenskir sem koma í verslanir í lok næsta mánaðar. Ávallt er um að ræða teiknimyndapersónur sem eru vel þekktar í hverju landi. Jóhannes Þórðsrson, markaðs- og þróunarstjóri 3-PLUS, segir að ákveðið hafi verið í byrjun að reyna að finna þekkta dreifingaraðila, helst þá bestu. Óhætt er að segja að því markmiði hafi verið náð. Fisher Price hefur tryggt sér söluréttindi í öllum enskumælandi löndum. Vörumerkið er sagt gulltryggja góða sölu og það til langs tíma. Stefnt er að því að selja milljón tæki í Bandaríkjunum fyrir jól. Í Evrópu er leikfanginu dreift í gegnum fyrirtæki sambærileg Fisher Price, eins og hinu franska Berchet.  Jóhannes fæst ekki til að setja verðmiða á samningana en ljóst er að hluthafar 3-PLUS, sem eru á þriðja tug, mega vel við una. Spurður hvort þetta sé að svipaðri stærðargráðu og Latabæsævintýrið segir Jóhannes þetta öðruvísi. Það sem fyrirtækin eigi þó sameiginlegt sé að markhópurinn sé hinn sami og það sé verið að framleiða leikföng. Einnig eru hafnar viðræður við bandarísku sjónvarpsstöðina Nickelodeon.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×