Erlent

Án bóta í sex áratugi

Tæpum 60 árum eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki þjást sum eftirlifandi fórnarlömb árásanna enn án þess að fá nokkrar bætur eða aðstoð. Meðal þeirra sem urðu fyrir árásunum og eiga við heilsubrest að stríða af þeim sökum er fjöldi Norður-Kóreubúa sem flutti aftur til heimalands síns nokkrum árum eftir árásirnar. Þeir voru í Japan eftir að hafa verið fluttir þangað í nauðungarvinnu. Ekki er vitað hversu margir eftirlifendur árásanna búa í Norður-Kóreu. Japönsk stjórnvöld telja þá vera 930 en hópar sem styðja við bakið á fórnarlömbum árásanna telja þá vera tæplega 2.000. Fórnarlömb árásanna sem búa í Japan fá greiddar bætur úr ríkissjóði og ókeypis læknisþjónustu. Stjórnvöld hafa hins vegar alla tíð neitað að greiða fórnarlömbum, búsettum í Norður-Kóreu, bætur og það eru aðeins tvö ár síðan önnur fórnarlömb búsett erlendis fengu fyrst greiddar bætur. Það var ekki gert fyrr en eftir dómsúrskurð sem skyldaði stjórnvöld til þess. Stjórnvöld rökstyðja ákvörðun sína um að greiða ekki bætur til Norður-kóreskra fórnarlamba með því að þau geti ekki verið viss um að bæturnar rati til þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×