Skoðun

Þeir stálu kosningarétti mínum

Bréf til blaðsins - Elín G. Ólafsdóttir kennari skrifar um atburðarás hannaða af körlum. Sem kvenfrelsis- og baráttukona til áratuga - áhugasöm um flest er lýtur að kjara- og þjóðmálapólitík hef ég hingað til nýtt rétt minn til að láta skoðun mína í ljósi og kjósa um það sem að höndum ber í samfélaginu. Ég fór á kjörstað 26. júní - ætlaði að taka þátt. Þegar til kom treysti ég mér ekki til að láta stríðandi fylkingum eftir að túlka gjörðir mínar eftir sínu höfði. Ég bakkaði úr stæðinu og fór heim á suðumarki, öskuill yfir því að ráðakarlar skyldu fá að ganga svo langt í refskákinni að mér og mörgum fleiri var fyrirmunað að kjósa. Einu gilti hvað ég gerði, allt yrði það á forsendum stríðandi afla. Strákaskríbentar fjölmiðla tækju síðan að troða sínum skýringum upp á þjóðina. Ég var klemmd inni í horni, alls varnað. Karlaskammirnar stálu kosningarétti mínum. Til að taka af skarið um örfá atriði: Ég er hlynnt því að almenningur fái að kjósa um lög er varða þjóðarheill. Ég hef alltaf verið á móti óeðlilegri samþjöppun valds, sem hér hefur viðgengist svo langt sem ég man, sbr. t.d. skipafélag sem á ráðandi hlut í flugfélagi og hefur jafnframt lagt flutninga á þjóðvegum undir sig. Einokun og fákeppni eru af hinu vonda fyrir almenning. Ég er hins vegar afar ósátt við offorsið, þær ögranir og hótanir sem dunið hafa á mér o.fl. frá "hinu háa Alþingi", að ég ekki tali um frelsisfrekju þings hvað eiginhagsmuni þeirra sem þar sitja varðar (sbr, eftirlaunalögin) og yfirganginn gagnvart gömlum, veikum og öryrkjum. Almenningur á rétt á að fá að segja sitt álit á mikilvægri lagasetningu. Um þjóðaratkvæði á ekki að tala líkt og vá sé fyrir dyrum ef sauðsvartur almúginn fær orðið "milli mála", þ.e. milli Alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. Karlar - sérílagi eru sífellt að hanna atburðarás sem þeir troða okkur hinum inn í á sínum forsendum. Síðan bíta þeir höfuðið af skömminni með því að skilgreina atburðarásina, hugsanir okkar hinna og gjörðir eftir einföldu hugarkerfi eigin yfirgangs og frekju - og auðvitað sér í hag. Sem kvenfrelsiskona þoli ég þetta ekki. Það var vegna þessa sem ég tók ekki þátt í þessum leiðu kosningum - þessu þvingaða leikriti sem karlar beggja arma skýra sér í hag, eða skýra út í hött, sbr. hve hrærður forsetinn er og hversu lítið er gert úr slakri þátttöku í kosningunum. Við teljum okkur vita nokk um ástæður auðu seðlanna en slök þátttaka í kosningum í lýðræðiþjóðfélagi er ekki einfalt mál. Slök þátttaka í kosningum er oftast merki um óánægju eða uppgjöf á valdhöfum. Það er lýðræðinu hættulegt. Ég skrifa þessi orð uppgefin á karlaslagnum og uppgefin á karlaskýringum, uppgefin á karlkyns "álitsgjöfum", körlunum sem sífellt taka orðið en hjakka í sama farinu og líta á allt út frá ferköntuðum reynsluheimi karla. Það var hvorki sökum leti, tómleika í hjarta, né skoðana- eða áhugaleysis sem ég treysti mér ekki til að taka þátt í þessum kosningum. Ég hugsaði þegar til kom einfaldlega eins og konan í leikritinu: "Ég er hætt, farin, ég nenni ekki að vera með í svona leiðinlegu leikriti."



Skoðun

Sjá meira


×