Skoðun

Frá degi til dags

Kosningabarátta Mótframbjóðendur forsetans fara mikinn þessa dagana og gera hvað þeir geta til að vekja athygli á sjálfum sér og málefnum sínum. Ástþór flaggar erlendum fræðimönnum og samtökum sem berjast fyrir friðvænlegri heimi og stendur á því fastar en fótunum að forseti Íslands geti orðið eins og leiðarljós í þeim efnum. Þessi sjónarmið þekkja orðið flestir enda hefur hann haldið þeim á lofti lengi. Baldur Ágústsson virðist hins vegar í aðeins meiri bobba með málefnin sín. Hann vill "endurvekja virðingu embættisins" sem honum þykir hafa tekið niður síðustu ár. Virðulegur frambjóðandinn vílaði samt ekki fyrir sér að mæta í þáttinn 70 mínútur á Popptíví í vikunni þar sem honum var boðið að borða matskeið af smjörva og síðar um kvöldið að bragða á svonefndum ógeðsdrykk. Kannski endurspeglast ópólitísk staða Baldurs í því að hann kláraði ekki drykkinn sinn, eins og flestir stjórnmálamenn sem komið hafa fram í fyrrnefndum þætti. Gömul vísa Annars eru forsetakosningarnar á morgun fólki eðlilega hugleiknar. Trúmann Kristiansen í Kópavogi rifjaði, í samtali við innanbúðarmann blaðsins, upp gamla vísu frá því í forsetakosningunum árið 1952 þegar Ásgeir Ásgeirsson var kosinn forseti og taldi að hún ætti rétt eins við í dag. Vísan hljóðar svo: Eitt sinn flutt var yfir á úlfur, lamb og heypokinn. Nú á að kjósa um þessa þrjá, hvílík þrenning Drottinn minn. Árið 1952 fékk Ásgeir 48,3 prósent gildra atkvæða. Mótframbjóðandinn Bjarni Jónsson fékk 45,5 prósent atkvæða og Gísli Sveinsson 6 prósent. Núna er sitjandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, spáð tæpum 72 prósentum atkvæða, Baldri Ágústsyni rúmum 6 prósentum og Ástþóri Magnússyni rúmu einu prósenti.



Skoðun

Sjá meira


×