Skoðun

Frá degi til dags

Gamlir rokkhundar Í dag koma til landsins gamlir rokkhundar í þungrokksveitinni Deep Purple og ætla að gleðja landsmenn með 30-40 ára gömlu þungarokki. Vonandi hafa þeir engu gleymt gömlu mennirnir, en reynist sú raunin er ekki víst að það komi að sök, því tónleikagestir vita eflaust hvernig lögin eiga að hljóma. Margir áhorfenda eiga eflaust þá plötu sveitarinnar sem talin er með bestu hljómleikaplötum allra tíma, en það er upptaka af tónleikum Deep Purple í Japan árið 1972, Made in Japan. Annars eru í sveitinni þrír af upprunalegum meðlimum, þeir Ian Gillan, Roger Glover og Ian Paice. Þar standa Deep Purple liðar betur en sumar aðrar aldurhnignar rokksveitir. Nægir þar að nefna Black Sabbath, sem var enn með lífsmarki síðast þegar til spurðist, en þar er gítarhetjan Tommy Iommy, einn eftir úr upprunalegu sveitinni. Hann er samt enn sagður vera að reyna að kreista úr sér "nýtt" rokk og orðrómur í gangi um að á næsta ári sé von á stúdíóplötu frá sveitinni, þeirri fyrstu síðan 1995. Kannski að hægt verði að plata þá til landsins næsta sumar til að kynna gripinn. SS sérsveitin gengur aftur Vitað er til þess að mörgum brá við niðurlag hressilegrar auglýsingar frá Sláturfélagi Suðurlands þar sem athygli er vakin á kjötafurðum fyrirtækisins sem eru í almennri sölu. Skilaboðin voru nefnilegar frá "SS sérsveitinni". Sérsveit Sláturfélagsins kann að vera sauðameinlaus, en samnefnari hennar í Þýskalandi seinni heimsstyrjaldarinnar var allt annað en meinlaus. Nú er ekki alveg ljóst hver markhópur þessara auglýsinga er. Ef til vill eru það ungmennin sem Morgunblaðið hefur grunað um hnignandi söguþekkingu, en þó er vitað um fólk á tvítugsaldri sem náði ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir þessari vísun í sérsveit SS sem tengja mætti Waffen SS. Kannski að auglýsingastofur landsins ættu að gera skurk í sagnfræðiuppfræðslu starfsmanna sinna?



Skoðun

Sjá meira


×