Skoðun

Efst í huga Ástþórs Magnússonar

Sameiningartákn Forsetinn á að leiða þjóðina saman í góðum málum sem geta aukið veg og virðingu okkar bæði á heimavelli sem og á alþjóðlegum vettvangi. Okkur býðst nú það tækifæri að forseti Íslands verði alþjóðlegt sameiningartákn friðar og mannréttindi yrði ég kjörinn til embættisins. Hugmyndin hefur fengið víðtækan stuðning Nóbelsverðlaunahafa, fræðimanna og framáfólks í friðarmálum um allan heim. Aldrei fyrr hefur Íslendingum boðist slíkt tækifæri sem nú að leiða stærsta baráttumál mannkyns og valda straumhvörfum á alþjóðlegum vettvangi. Virkara lýðræði Ég vil nota nútíma tækni til að þróa virkara lýðræði sem tryggir að forsetinn sé virkur öryggisventill þjóðarinnar í samræmi við stjórnarskrá. Slíkt vald má ekki misnota eins og Ólafur Ragnar Grímsson gerði með því að ganga erinda eins fyrirtækis. Ég vil að þetta vald verði notað af meiri ábyrgð og vil sem forseti beita áhrifavaldi forseta til að þróuð verði lög eða reglugerð um það undir hvaða kringumstæðum og með hvaða hætti slíkur málskotsréttur eigi rétt á sér. Þannig má hefja lýðræðið yfir dægurþras og deilur einstakra manna og gera málskotsréttinn virkan sem eðlilegan hluta af stjórnkerfi okkar. Ísland fyrirmynd friðar Heimsbyggðin kallar eftir leiðtoga sem getur leitt heiminn til friðar með nýjum áherslum og nýrri hugmyndafræði. Samtökin Friður 2000 hafa þróað slíka hugmyndafræði með skírskotun í þá einstöku sögu okkar að á Íslandi hafi búið vopnlaus þjóð við frið nær óslitið í þúsund ár, eftir að forfeður okkar tóku eitt merkasta skref mannkynssögunnar í friðarmálum á alþingisfundinum árið 1000. Þessi boðskapur er jafn mikilvægur og sjálft jólaguðspjallið hefur verið um aldir og forseti Íslands getur þannig orðið boðberi þúsund ára friðar til mannkyns og fært fram nánari hugmyndafræði um hvernig slíkt getur orðið. Fjölmiðlarnir Fjölmiðlar eru einn mesti áhrifavaldurinn í lýðræðisþjóðfélagi. Ég hef barist fyrir því að íslenskir fjölmiðlar fari með þetta vald af ábyrgð, en því miður hefur víða verið pottur brotinn hvað varðar forsetakosningarnar. Þetta var undirstrikað í viðtölum Stöðvar 2 í vikunni við unga kjósendur þar sem fram kom að flestir þeirra vissu ekki hvenær forsetakosningar fari fram, hverjir séu í framboði og þaðan af síður hvaða málefni er verið að fjalla um. Ljóst er af þessu að íslenskir fjölmiðlar hafa brugðist sínu hlutverki og því erum við á blússandi ferð inn í rússneskar forsetakosningar á laugardaginn kemur.



Skoðun

Sjá meira


×