Skoðun

Gerræðisleg atlaga að lýðræðinu

Forsetakosningar - Albert Jensen Annar júní 2004 mun í minnum hafður fyrir fleira en að forseti þjóðarinnar neitaði í fyrsta skipti að staðfesta lög. Þegar ég horfði á forseta vorn lesa formála neitunarinnar, gerði ég mér ljóst hvílíkt hugrekki þurfti til. Á blaðinu sem hann las, sást að hendur hans titruðu. Að vísu var honum gert að velja á milli þings og þjóðar. Hann gat látið hefðina ráða og skrifað undir og þannig róað Davíð og Halldór og treyst á gleymsku Frónverja. Reyndar hefði ég viljað sjá hann neita lögum um Kárahnjúkavirkjun, en hann er greinilega meiri pólitíkus en umhverfissinni, svo sorglegt sem það er. Þegar Ólafur loks færði þjóðinni vald í stóru máli, var stjórnarherrunum nóg boðið. Það var ofar þeirra skilningi að forsetinn færði þjóðinni ákvörðunarvaldið. Þau þrjú ár sem Davíð á eftir af ráðningarsamningi sínum við þjóðina, sýnist hann ákveðinn í að hafa vit fyrir henni. Hann breytir samningnum þvert ofan í óskir þjóðarinnar, skiptir um hlutverk við Halldór og svo vona þeir sameiginlega, að allt mallið verði gleymt fyrir kosningar. Nú hugnast þeim að breyta stjórnarskránni, afnema málskotsrétt forsetans og taka með því af þjóðinni eitt af því lýðræðislegasta í stjórnarskránni. Auk þessa vilja þeir að fjölmiðlalögin haldi, verði kosningaþátttakan innan við 75%. Svo gerræðisleg atlaga að lýðræðinu minnir á einræðisríkin. Að hafa áhrif á kosningarnar er auðvelt fyrir stjórnarflokkana og aðra þá er vilja afnema þau völd og öryggi sem þjóðin hefur með málskotsrétti forseta. Auglýsingamátturinn sem tryggði stjórnarflokkunum nauman meirihluta, er enn til staðar. Svo er bara að fá hagsmunaaðila og þá sem láta hugsa fyrir sig, til að sitja heima á kosningadag. Til að fullkomna öryggið, gætu þeir látið kjósa 31. júlí eða 1. ágúst. Ég treysti þjóð minni til að sjá í gegnum einræðishyggjuna sem blasir grímulaus við. Virðingarleysið sem stjórnarherrarnir sýna þjóðinni er með eindæmum og ólíðandi. Þjóðin getur ekki treyst á málskotsrétt í öðrum höndum en forseta Íslands. Sú hætta er ætíð fyrir hendi að ofstjórnunarfíkn grípi valdhafa og að lagasmíðar þeirra verði á skjön við það sem þeir voru kosnir til. Þá er til lítils fyrir þjóðina, ef leppar slíkra stjórnvalda hafa málskotsréttinn. Tal utanríkisráðherra um óþarfa kostnað ef þjóðinni leyfist að kjósa, kemur úr hörðustu átt. Allir sjá hvað verið er að gera í utanríkismálum. Niðurskurður um tvö til þrjú hundruð milljónir í heilbrigðiskerfinu, vegna kostnaðar við Afganistan. Tugir Íslendinga, margir vopnaðir, hafa verið sendir þangað til hjálpar, en óvíða er svo margt hjálparfólk drepið sem þar. Nýjasta dæmið þegar þrír læknar án landamæra og starfsmenn þeirra voru myrtir í hjálparleiðangri. Í Kosovó, Bosníu og fleiri stöðum þar sem hjálparfólki er hótað og jafnvel drepið, er kostnaður Íslands umtalsverður í óvissu sem engu skilar.



Skoðun

Sjá meira


×