Skoðun

Sleggjudómar um kennaramenntun

Menntun kennara - Elín Thorarensen Í yfirstandandi verkfalli kennara hefur ýmislegt sem varðar menntun þeirra verið í umræðu, meðal annars í dagblöðum. Flestar þær fullyrðingar sem fram hafa verið settar eiga sér eflaust stoð í ókunnugleika þeirra sem um fjalla, hugsanlega líka gagnrýnislausu mati fjölmiðla sem slá þeim fram. Eftirfarandi upplýsingar ættu að veita skýringar á ýmsum þeim atriðum sem nefnd hafa verið. Nú er liðið nokkuð á fjórða áratug frá því að Kennaraháskóli Íslands var stofnaður á grunni hins gamla Kennaraskóla Íslands. Kennaranám var þá flutt á háskólastig og skipulagt sem háskólanám. Að sjálfsögðu hefur nám við skólann breyst og þróast á þessum áratugum. Nú er nám almennra grunnskólakennara þriggja ára háskólanám sem lýkur með B.Ed.-gráðu. Kennsla fer ýmist fram í formi fjölmennra fyrirlestra eða í fámennum hópum þar sem eru á bilinu 12-30 stúdentar. Rannsóknir sýna að slík kennsla skilar mun betri árangri en nám sem byggir nær eingöngu á fjölmennum fyrirlestrum. Það er rétt sem haldið hefur verið á lofti að í Kennaraháskóla Íslands er lögð áhersla á nána samvinnu nemenda innbyrðis enda á það við í almennum grunnskólum ekki síður en á öðrum vinnustöðum að samvinna um verkefnin sem fyrir liggja er mikilvæg forsenda þess að vel takist til. Þetta vita stórfyrirtækin sem senda starfsmenn sína unnvörpum á námskeið af ýmsu tagi til að efla samvinnuhæfni þeirra. Þetta vita þeir líka sem skipuleggja kennaramenntunina. Þess vegna er lögð áhersla á að efla samstarfsfærni kennaranema og hæfni þeirra í að taka tillit til annarra, stjórna hópstarfi og taka þátt í teymisvinnu. Flogið hefur fyrir að lágt brottfall úr kennaranámi staðfesti að námið sé léttvægt og ekki sambærilegt við nám t.d. í lögfræði þar sem brottfall er verulegt. Í þessu sambandi er rétt að ítreka að ekki er um að ræða að stúdentar skrái sig í nám við Kennaraháskólann eins og gert er í Háskóla Íslands heldur er sótt um nám þar og valið úr umsóknum. Þrátt fyrir að skólinn hafi stækkað mjög á undanförnum árum hefur á sama tíma þurft að hafna um helmingi umsækjenda um grunnskólakennaranám ár hvert. Nú í haust fengu inngöngu 49% þeirra sem sóttu um nám á grunnskólabraut. Allmargir úr þeim hópi hafa aflað sér kennslureynslu sem mun koma þeim til góða í náminu. Auk þess eru flestir sem velja að stunda kennaranám mjög öruggir um sitt námsval og leggja áherslu á að ljúka námi sínu. Þá hefur verið bent á að hópur grunnskólakennara hefur ekki lokið háskólanámi. Þetta er eðlilegt þegar horft er til þess að enn eru starfandi kennarar sem luku námi sínu áður en Kennaraháskólinn tók til starfa árið 1971. Þeir hlutu bestu menntun sem bauðst á sínum tíma. Þeim fækkar hins vegar óðum, enda hafa þeir flestir um þessar mundir nálægt 40 ára starfsreynslu að baki og eru um það bil að ljúka mikilvægu ævistarfi. Til þessa hefur löng starfsreynsla, endur- og viðbótarmenntun þessa fólks einmitt þótt eftirsóknarverð og því heldur kaldranalegt að væna einmitt þessa kennara um vankunnáttu í sérgrein sinni. Einkunnarorð Kennaraháskólans, Alúð við fólk og fræði, endurspegla þau viðhorf sem skólinn hefur að leiðarljósi. Skólinn er bæði starfsmenntaháskóli og rannsóknarháskóli, en jafnframt háskóli nýsköpunar og frjórra hugmynda, háskóli sem hefur markvisst leitast við að þróa starf sitt og laga það að nýrri tækni og breyttum kröfum. Þeir sem halda öðru fram um starfsemi Kennaraháskóla Íslands hafa greinilega ekki kynnt sér starfsemi hans. Höfundur er kynningarfulltrúi Kennaraháskóla Íslands.



Skoðun

Sjá meira


×