Erlent

Ný stjórn tryggir brottflutning

Takist að mynda nýja stjórn í Ísrael er brottflutningur Ísraela frá Gaza-svæðinu tryggður og friðvænlegra horfir á svæðinu. Viðræður eru hafnar um stjórn sem er sammála um að leggja niður landnemabyggðir Ísraela á Gaza-svæðinu og eftirláta Palestínumönnum svæðið. Eitt stærsta málið í deilum Palestínumanna og Ísraela eru landnemabyggðir gyðinga inni á svæðum palestínumanna. Á Gazasvæðinu búa átta þúsund gyðingar innan um eina og hálfa milljón Palestínumanna, undir öflugri vernd ísraelskra hersveita. Þar hefur oft komið til mikilla átaka. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur viljað brottflutning Ísraelsmanna frá Gasa, og fjórum stöðum á vesturbakkanum, en ekki haft nægan stuðning á þinginu til þess. Verkamannaflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, styður hinsvegar brottflutning, og fékk Sharon heimild hjá eigin flokki, Likud-flokknum, til að mynda þjóðstjórn með honum, stjórn sem yrði sammála um að eftirláta Palestínumönnum Gasasvæðið. Þannig hafa vonir um frið á svæðinu glæðst, en viðræður um stjórnarmyndun eru hafnar. Þrátt fyrir yfirlýsingar um friðarvilja skaut ísraelski herinn í dag inn í flóttamannabúðir Palestínumanna á Gazaströndinni, með þeim afleiðingum að fjögur skólabörn særðust. Árásin kemur í kjölfar þess að palestínskir hryðjuverkamenn skutu flugskeytum að byggðum Ísraelsmanna á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×