Skoðun

Atvinnumál á Suðurnesjum

Atvinnumál - Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur fjórfaldast á tveim árum og er nú eitt það mesta á landinu. Á um níu mánaða tímabili hafa um 150 manns misst vinnuna á Keflavíkurflugvelli og ekkert lát virðist á uppsögnum þar. Stjórnarflokkarnir hafa leikið atvinnulíf á Suðurnesjum afar grátt. Ríkisstjórnin hefði fyrir löngu átt að grípa til aðgerða til að búa í haginn og renna stoðum undir atvinnulíf sem gæti komið í staðinn fyrir þau störf sem óhjákvæmilega töpuðust í tengslum við samdrátt á vegum Varnarliðsins sem hefur verið fyrirsjáanlegur í mörg ár. Hlálegt var að heyra Suðurnesjaþingmanninn Hjálmar Árnason, formann þingflokks Framsóknarflokksins, lýsa því í fréttum RÚV fyrir nokkru að bandarísk stjórnvöld væru með fólk á Suðurnesjum í gíslingu. Hið rétta er að það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem halda fólki í gíslingu með aðgerðaleysi sínu og sinnuleysi við að veita fólki þær upplýsingar um framtíð þess sem það á kröfu á. Mál varðandi veru hersins á Keflavíkurflugvelli, þar með talin atvinnumál, komu margoft til umræðu á Alþingi á liðnum vetri. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknar sem ber ábyrgð á ástandinu, var til andsvara. Við í stjórnarandstöðunni spurðum hann hvað eftir annað hver hin raunverulega staða væri í þessum málum, og hvað íslensk stjórnvöld hygðust gera til að mæta þeim vanda sem kæmi upp í tengslum við samdráttinn. Halldór gaf vægast sagt loðin svör. Hjálmar Árnason tók einu sinni til máls í þessum umræðum og talaði í tvær mínútur. Framsókn er ráðþrota í þessu máli og reynir nú að koma sök vegna eigin vanhæfi yfir á Bandaríkjamenn. Betra hefði verið að ríkisstjórnin hefði eytt einhverjum af þeim milljörðum sem hafa farið í utanríkisþjónustu undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar í að hlúa að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Utanríkisþjónustan tútnar út. Árið 1996 voru útgjöld utanríkisráðuneytisins um tveir milljarðar. Á síðasta ári var þessi upphæð 5,5 milljarðar. Peningum hefur verið sólundað í sendiráð víða um heim, brölt tengt hernaði í Kosovo og Afganistan, vafasama umsókn að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og fleira. Fjármunum þjóðarinnar er sólundað til að reyna að gera veg utanríkisráðherrans sem mestan á meðan hann er í embætti. Þessum peningum hefði verið betur varið til að hlúa að því sem skiptir máli hér heima á Íslandi. Að fólk hafi vinnu. En hvað er til ráða til að vinna bug á atvinnuleysisdraugnum? Við eigum fyrst og fremst að horfa til gjaldeyrisskapandi grunnatvinnugreina þar sem þegar er fyrir hendi mikil þekking, mannauður og netverk fyrirtækja og tækjabúnaðar á svæðinu. Hér á ég fyrst og fremst við ferðamál og sjávarútveg. - Leggja ber áherslu á lagningu nýrra vega til og frá Suðurnesjum. Hinn nýi Suðurstrandarvegur á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar er hér forgangsatriði. Þessi vegur sem beintengir tvö mikilvæg atvinnusvæði á landsbyggðinni liggur um mjög fallegt svæði. Hann yrði lyftistöng bæði fyrir ferðaþjónustu og annað atvinnulíf. - Það verður að slaka á hinni lamandi kló kvótakerfisins. Það á strax að afnema kvótasetningar á ýsu, ufsa, keilu, löngu, skötusel og kolmunna. Ef nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar er flett þá sést að ekkert mælir með því að þessir stofnar séu í kvóta. Þeir eru ekki í neinni hættu, heldur örum vexti samfara miklum hlýindum í sjónum umhverfis landið. Afnám kvótasetningar í þessum tegundum yrði mikil vítamínsprauta fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum og reyndar víðar í Suðurkjördæmi. Suðurnes gætu þá notið nálægðar sinnar við auðug fiskimið og alþjóðaflugvöll til að flytja út ferskan fisk sem hæstu verð fást fyrir. - Á síðustu dögum þinghalds í vor, samþykkti Alþingi að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess að byggt yrði veglegt sædýrasafn hér á landi. Sandgerði yrði góður staður. Þar eru nú stundaðar rannsóknir á sjávarlífverum sem lifa umhverfis Ísland. Sandgerði er falleg fiskihöfn þar sem áreiðanlega yrði mikið líf og fjör ef slakað yrði á kvótakerfinu. Þar eru fiskvinnslufyrirtæki og fiskmarkaður. Þetta mætti allt tengja saman og gera Sandgerði að frábærum og einum allsherjarsýningarglugga fyrir hið ríka lífríki í hafinu umhverfis Ísland, íslenskan sjávarútveg og menningu tengda honum. Sædýrasafnið í Sandgerði yrði lyftistöng fyrir ferðamál á Suðurnesjum, auk þess sem það gæti styrkt svæðið sem miðstöð fyrir rannsóknir í sjávarlíffræði hér á landi. Greinarhöfundur er 9. þingmaður Suðurkjördæmis, þingflokksformaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.



Skoðun

Sjá meira


×