Körfubolti

Óvænt stjarna skein skært í sigri Toronto í fyrsta leik úrslitanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Siakam var stigahæstur í liði Toronto með 32 stig.
Siakam var stigahæstur í liði Toronto með 32 stig. vísir/getty
Toronto Raptors bar sigurorð af Golden State Warriors, 118-109, í fyrsta leik úrslita NBA-deildarinnar í nótt. Leikið var í Toronto en þetta er í fyrsta sinn sem leikur í úrslitum NBA fer fram utan Bandaríkjanna.

Þetta var jafnframt fyrsti leikur Toronto í úrslitum í 24 ára sögu félagsins. Golden State er hins vegar í úrslitum fimmta árið í röð. Í fyrstu fjögur skiptin vann liðið fyrsta leikinn í úrslitunum. Líkt og í undanförnum leikjum var Kevin Durant fjarri góðu gamni hjá Golden State vegna meiðsla.

Kamerúninn Pascal Siakam skoraði 32 stig og tók átta fráköst í liði Toronto. Hann hefur aldrei skorað meira í einum leik í úrslitakeppni á ferlinum. Siakam hitti úr 14 af 17 skotum sínum utan af velli og hitti m.a. úr ellefu skotum í röð.



Kawhi Leonard hefur oft hitt betur en skilaði samt 23 stigum og átta fráköstum. Marc Gasol skoraði 20 stig og tók sjö fráköst.

Stephen Curry skoraði 34 stig fyrir Golden State og Klay Thompson 21. Draymond Green var með þrefalda tvennu; tíu stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar.



Liðin mætast öðru sinni í Toronto aðfaranótt mánudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×