Innlent

Stefán Eiríksson: Notum könnunina til að peppa menn upp

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
„Við reynum að nýta þetta til þess að peppa menn upp og hrósa starfsfólki fyrir vel unnin störf," segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, um nýja skoðanakönnun MMR en samkvæmt henni nýtur lögreglan afgerandi trausts. Stefán segist vera afskaplega ánægður með niðurstöðuna. Um land allt hafi lögreglan verið að ná afar góðum árangri. „Lögregla er í góðum tengslum við fólkið í landinu og sinnir ýmsum verkefnum sem eru ekki alltaf á síðum blaðanna eða í vefmiðlunum," segir lögreglustjórinn.

Skoðanakönnun MMR fór fram dagana 9. til 14. september. Í desember 2008 sögðu 75,7 prósent bera mikið traust til lögreglu og 76,9 prósent í maí síðastliðnum. Samkvæmt nýrri könnun bera nú 80,9 prósent landsmanna mikið traust til lögreglumanna.

„Ég var rétt í þessu að senda á alla mína starfsmenn upplýsingar um þessa könnun. Að mínu mati sýnir niðurstaðan með afgerandi hætti það góða starf sem starfsmenn embættisins og lögreglumenn í öllu landinu eru að vinna," segir Stefán.

Lögreglustjórinn segist aðspurður hafa skynjað mikinn stuðning við aðgerðir lögreglu í kjölfar átaka sem brutust út eftir bankahrunið fyrir ári síðan. „Það er alveg skýrt og afdráttarlaust að mínu mati að meginþorri almennings var sáttur með framgöngu lögreglu þar. Ég held að það sé ekki bara það sem skýrir þetta því lögreglan um land allt er að ná árangri á mjög mörgum sviðum."

Stefán telur að niðurstaða eins og þessi sé góð fyrir vinnuandann innan lögreglunnar og um leið hvatning til allra sem þar starfa.

Traust til lögreglu hafi aukist jafnt og þétt frá því í desember og segir Stefán könnuna sýna að það sé alltaf hægt að gera betur. „Við ætlum að leggja okkur fram við það hér eftir sem hingað til. Við vöknum á hverjum morgni með það að markmiði að gera betur en í dag en í gær."




Tengdar fréttir

Lögreglan nýtur afgerandi trausts

Lögreglan nýtur afgerandi trausts í nýrri skoðanakönnun MMR og segjast tæplega 81 prósent aðspurðra bera mikið traust til lögreglunnar. Traust til Háskóla Íslands mælist tæplega 70 prósent. Bankakerfið situr sem fyrr á botninum hvað traust almennings áhrærir, en tæp 3 prósent segjast bera mikið traust til þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×