Fleiri fréttir

Kaup Actavis frágengin

Actavis er búið að kaupa bandaríska lyfjafyrirtækið Amide á 33 milljarða króna og var það staðgreitt. Sameiginlega eru þessi fyrirtækið með fimm hundruð samheitalyf á markaði og þar með eitt mesta lyfjaúrval á sínu sviði. Þá eru fyrirtækin með eitt hundrað og fjörutíu lyf í þróun.

Áminntir vegna trúnaðarbrots

Fjárfestar sem skilað hafa inn tilboðum í Símann sem ekki eru bindandi voru í gær áminntir um að virða trúnaðarsamning sem þeir undirrituðu til að fá útboðsgögn afhend. Í bréfi frá einkavæðingarnefnd til fjárfestanna kemur fram að tilteknar upplýsingar um söluferlið hafi verið gerðar opinberar í fjölmiðlum undanfarna daga án heimildar.

38 milljarða halli á vöruskiptum

Íslendingar fluttu út vörur fyrir rúma 202 milljarða króna árið 2004 en inn fyrir rúmlega 240 milljarða. Halli á vöruskiptum við útlönd nam því 38 milljörðum á síðasta ári.

Gengi bréfa í Actavis rauk upp

Gengi bréfa í Actavis rauk upp í morgun eftir að tilkynnt var um kaup á bandarísku lyfjafyrirtæiki. Actavis keypti bandaríska lyfjafyrirtækið Amide í morgun fyrir þrjátíu og þrjá milljarða króna.  

Hönnun og Tandur fyrirtæki ársins

Hönnun hf. og Tandur hf. eru fyrirtæki ársins 2005 samkvæmt niðurstöðum könnunar Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem send var til yfir tuttugu þúsund starfsmanna á vinnumarkaði.

Vísitalan lækkaði um 0,5%

Samræmd vísitala neysluverðs fyrir Ísland var 129,2 stig í apríl og lækkaði um 0,5% frá fyrra mánuði, aðallega vegna mikillar samkeppni á dagvörumarkaði samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Hagnaður aukist um 50 prósent

Stjórnendur lyfjafyrirtækisins Actavis búast við að hagnaður fyrirtækisins aukist um allt að 50 prósent á næsta ári eftir kaupin á bandaríska samheitalyfjafyrirtækinu Amide. Kaupverðið nemur um 34 milljörðum íslenskra króna og er um stærstu fjárfestingu fyrirtækisins að ræða frá upphafi.

Íbúðaverð hækki um 15% í viðbót

Greining Íslandsbanka spáir því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu muni hækka um 15 prósent til viðbótar þar til það staðnar síðla á næsta ári og stöðnun muni ríkja á íbúðamarkaðnum allt árið 2007. Spáir greiningardeildin því að markaðsverð íbúðarhúsnæðis fari úr um 175 þúsund krónum á fermetra, eins og það er nú, og yfir 200 þúsund krónur að meðaltali á fermetra áður en kemur að tímabili stöðnunar á fasteignamarkaði.

Kaupa saman útvarpsstöðvar

Ár og dagur, útgáfufélag <em>Blaðsins</em>, og Íslenska sjónvarpsfélagið sem rekur Skjá einn hafa keypt 97 prósent hlutafjár í Pyrit fjölmiðlun ehf. sem rekur útvarpsstöðvarnar KissFM og X-FM. Í tilkynningu frá Skjá einum segir að nýir eigendur ætli sér að vinna með öflugum hópi núverandi starfsfólks með það markmið að auka bæði markaðshlutdeild og hlustunarsvæði stöðvanna. Kaupverð er sagt trúnaðarmál.

Ekki stefnt að sjónvarpsrekstri

Útgefendur <em>Blaðsins</em> og Skjár einn hafa í sameiningu keypt tvær útvarpsstöðvar. Ritstjóri <em>Blaðsins</em> segir samstarfið ekki þýða að farið verði út í sjónvarpsrekstur.

Fermetraverð fari yfir 200 þúsund

Greining Íslandsbanka spáir 15 prósenta hækkun á íbúðarverði til viðbótar þar til það staðni síðla á næsta ári. Meðalfermetraverð yrði þá komið yfir 200 þúsund krónur. Þó er tekið fram að lítið megi út af bregða til að ekki komi til lækkunar.

Aukin hætta á launaskriði

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi hefur lækkað úr 3,1 prósenti í 2,3 prósent á einu ári. Vegvísir Landsbankans bendir á að reynslan síðasta áratuginn sýni að ekki séu dæmi um að saman geti farið atvinnuleysi undir tveimur prósentum og verðbólga undir fjórum prósentum. Nú þegar atvinnuleysið sé komið niður að tveggja prósenta mörkunum aukist hættan á því að launaskrið aukist verulega.

Mikill áhugi á bréfum Mosaic

Fagfjárfestar óskuðu eftir að kaupa fjórfalt fleiri hluti í Mosaic Fashion en í boði voru en allt hlutaféð er selt fyrir 3,7 milljarða króna. Um er að ræða nýja hluti sem seldir voru á genginu 13,6, en hlutafjárútboðið er liður í undirbúningi að skráningu Mosaic Fashions í Kauphöll Íslands.

Viðskiptastríð í uppsiglingu?

Líkur á mesta viðskiptastríði sögunnar jukust í dag þegar upplýst var að Airbus-verksmiðjurnar hefðu beðið Evrópusambandið um lán til þess að hanna nýja farþegaþotu. Bandaríkjamenn eru æfir.

Almenningur ekki einn um sérkjör

Hópurinn sem Almenningur ehf. gerði samning við vegna kaupa á Símanum er ekki sá eini sem mun bjóða íslenskum almenningi sérkjör. Fleiri ætla að bjóða almenningi að minnsta kosti sömu kjör þótt Agnes Bragadóttir og Orri Vigfússon hafi ekki gert samkomulag við þá.

Meðal stærstu hluthafa Skandia

Burðarás er kominn langt með að verða stærsti hluthafinn í Skandia, en Burðarás á nú 4,4 prósent í félaginu eftir að hafa keypt eitt prósent á hálfan milljarð sænskra króna, eða tæplega fimm milljarða íslenskra króna. Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, segir í samtali við <em>Svenska Dagladet</em> og félagið líti á Skandia sem góðan fjárfestingarkost, ekki sé verið að sækjast eftir stjórnarsæti.

Fjórtán tilboð bárust í Símann

Alls bárust fjórtán óbindandi tilboð í hlutabréf ríkisins í Símann áður en frestur rann út í gær. Að baki tilboðanna standa 37 fjárfestar, innlendir og erlendir. Einkavæðinganefnd ætlar að opna bindandi tilboð í Símann, á síðara stigi söluferilsins, í viðurvist bjóðenda og fjölmiðla. Rætt verður fyrst við þann sem býður hæst um kaup á fyrirtækinu.

Fjórtán tilboð í Símann

Fjórtán tilboð bárust í hlut ríkisins í Landssíma Íslands. 37 fjárfestar standa að baki tilboðunum, bæði innlendir og erlendir. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun á næstu dögum ásamt ráðgjafafyrirtækinu Morgan Stanley fara yfir tilboðin. Við mat á þeim verður meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks, reynslu af rekstri, fjármögnum og framtíðarsýnar.

Samið við hæstbjóðendur

Fjórtán tilboð bárust í Landsíma Íslands. Þeir sem uppfylla skilyrði fá að bjóða aftur og verður þá verðið eitt látið ráða. Kögun, sem ætlaði að bjóða ásamt erlendum fjárfestum, var meinað um útboðsgögn.

Leggja stærstu hitaveitu í heimi

Fulltúar fyrirtækjanna Enex hf., Orkuveitu Reykjavíkur og Íslandsbanka hf. skrifuðu í morgun undir samkomulag um að leggja stærstu jarðvarmahitaveitu í heimi í nýtt hverfi sem á að rísa í borginni Xianyang í Kína. Gert er ráð fyrir að hitaveitan nái í fyrstu til 100 til 150 þúsund íbúa en síðan þegar hverfið hefur verið stækkað verða íbúarnir um 400 þúsund.

Yfirtökutilboð í finnskt símafélag

Novator Finland, dótturfélag Novator International, sem er fjárfestingafélag undir forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur gert tilboð í öll hlutabréf í finnska símafyrirtækinu Saunalahti. Tilboðið hljóðar upp á 1,9 evrur á hlut sem þýðir að heildarverðmæti fyrirtækins er um 21,5 milljarðar króna. Novator Finland á þegar tæp 23 prósent í félaginu.

Eignatengslum breytt vegna tilboðs

Dæmi eru um að hópar sem gerðu tilboð í Símann hafi breytt eignatengslum til að standast skilyrði útboðsins. Kögun sóttist ekki eftir útboðsgögnum eftir að einkavæðingarnefnd mat að fyrirtækið uppfyllti ekki sett skilyrði.

Efnahagur Kína á fleygiferð

Fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur á undanförnum dögum gert samninga við kínversk fyrirtæki enda er efnahagur Kína á fleygiferð. Það er þó ekki hlaupið að því að hefja viðskipti þar í landi.

Nýtt píramídafyrirtæki á Íslandi

Enn eitt píramídafyrirtækið ætlar að hasla sér völl á Íslandi þar sem gulli og grænum skógum er lofað. Nú er það fyrirtækið Bridge, sem er upprunnið í Svíþjóð, en skráð í Belís. Um 70 Íslendingar mættu á kynningarfund fyrirtækisins í gærkvöldi.

Fresturinn rennur út í dag

Frestur til að skila inn tilboðum í Símann rennur út í dag. Um fimmtíu áhugasamir fjárfestar hafa fengið útboðsgögnin í hendur en samkvæmt þeim reglum sem settar hafa verið þarf hvert tilboð að vera frá hópi sem settur er saman úr a.m.k. þremur hópum eða fjárfestum.

Síminn: Taka höndum saman

Almenningur hefur tekið höndum saman við Burðarás, Tryggingamiðstöðina og Talsímafélagið um að skila inn tilboði í Landssímann. Óskar Magnússon, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, og fulltrúar Almennings sátu á fundi í Landsbankanum fram eftir nóttu. Orri Vigfússon, talsmaður Almennings, vildi ekki játa þessu né neita.

Falla frá málsókn á hendur deCODE

Fallið hefur verið frá málsókn gegn deCODE genetics og stjórnendum þess sem bandarískt lögfræðifyrirtæki ætlaði að höfða. Taldi lögfræðistofan að stjórnendur deCODE hefðu þrýst gengi félagsins upp með því að birta villandi tilkynningar og með því að leyna vandamálum í innri stjórnun félagsins

Skiluðu inn tilboði í Símann

Almenningur, Burðarás, Tryggingamiðstöðina og Talsímafélagið skiluðu inn tilboði í Landssímann í dag samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

Lífeyrissjóður sjómanna hæstur

Ávöxtunin betri eftir því sem innlend hlutabréf vega meira. Lífeyrissjóðir skiluðu yfir tíu prósent raunávöxtun að meðaltali annað árið í röð.

Samvinnan lifir í Skagafirði

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga í fyrra var sá mesti í yfir hundrað ára sögu félagsins. Það er nú orðið stærsta fyrirtækið á Norðurlandi vestra sé horft til veltu. Sjávarútvegsfyrirtæki KS er það þriðja stærsta á Íslandi.  Á meðan samvinnufélög á Íslandi gáfu upp öndina hefur Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri stýrt sínu félagi í gegnum ólgusjó umbreytinga í íslensku atvinnulífi.

Gerðu tilboð í 99% hlut

Almenningur hefur tekið höndum saman við Burðarás, KEA, Tryggingamiðstöðina, Talsímafélagið og Ólaf Jóhann Ólafsson um að skila inn tilboði í tæplega 99% hlut í Landssímanum. Fleiri hópar fjárfesta, þar á meðal erlendir, hafa skilað inn tilboðum en fresturinn rann út klukkan þrjú í dag.

Fjárfestar vilja almenning með

Fjárfestahópar sem bjóða í Símann hafa að undanförnu unnið að því að bjóða almenningi bréf í fyrirtækinu til kaups strax að loknu útboð. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er talið nær öruggt að tilboð leitt af Exista sem áður hét Meiður muni tilbúið að setja allt að 30 prósenta hlut í Símanum á almennan markað strax að loknu útboði.

Kapphlaup um orku fyrir álver

Kapphlaup virðist hafið milli Norðuráls og Alcan, sem á álverið í Straumsvík, um að tryggja sér orku til meiri álframleiðslu Suðvestanlands. Bæði fyrirtækin hafa þreifað fyrir sér um orkukaup hjá Landsvirkjun.

Fasteignamarkaður sé að róast

Fasteignaverð er ekki að lækka og framboð á fasteignum ekki að aukast. Þetta segir Ólafur B. Blöndal, framkvæmdastjóri Fasteign.is. Hann segir þó markaðinn vera að róast og að hækkanir séu að öllum líkindum yfirstaðnar.

Vill byggja álver í Helguvík

Norðurál hyggst reisa allt að 250 þúsund tonna álver á iðnaðarsvæði Helguvíkur í Reykjanesbæ. Skrifað var undir viljayfirlýsingu þess efnis í gærkvöldi.

Frelsisáskrift Vodafone í útlöndum

Og Vodafone hefur tekið í notkun Ferðafrelsi, nýja þjónustu fyrir Frelsis viðskiptavini fyrirtækisins sem eru á leið til útlanda. Frelsis notendur þurfa ekki að gerast áskrifendur til þess að nota þjónustuna heldur einungis að skrá sig í Ferðafrelsi Og Vodafone. Þannig geta þeir hringt úr Frelsis númeri og fyllt á inneign á meðan dvöl þeirra í útlöndum stendur yfir.

Mega hafa opið á morgun

Matvöruverslunum með verslunarrými undir 600 fermetrum er nú heimilt að hafa opið alla helgidaga nema jóladag og mega þær því hafa opið á morgun, hvítasunnudag, og annan í hvítasunnu. Emil B. Karlsson, hjá Samtökum verslunar og þjónustu, segir ástæður fyrir breytingunum vera kröfur neytenda um rýmri afgreiðslutíma.

Sameinast undir Icelandic USA

Fyrrverandi dótturfélag SÍF, Samband of Iceland, í Bandaríkjunum er að sameinast dótturfélagi SH, Icelandic USA, í Bandaríkjunum og verða báðar verksmiðjurnar undir nafni Icelandic USA.

Komu að kaupum Glaziers

Íslensku bankarnir koma að kaupum auðkýfingsins Malcolms Glaziers í Manchester United. Breska verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood, sem er í eigu Landsbankans, mun hafa keypt nær 112 milljónir hluta í enska stórliðinu Manchester United fyrir bandaríska auðkýfinginn Malcolm Glazier sem hefur undanfarið ár reynt í allnokkrum tilraunum að ná félaginu til sín.

Deilt um nýstofnað fyrirtæki

Mál fjórmenninganna sem hættu skyndilega hjá Iceland Seafood og stofnuðu fyrirtæki í beinni samkeppni, verður flutt í héraðsdómi í dag. Fjórmenningarnir hættu störfum hjá Iceland Seafood í desemberlok og stofnuðu í kjölfarið Seafood Union, sem er í beinni samkeppni við Iceland Seafood.

Í viðræðum um kaup á fyrirtæki

Viðskipti með bréf í Actavis Group voru stöðvuð um hádegið í dag og í kjölfarið sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu þar sem staðfest var að viðræður um kaup á fyrirtæki séu langt á veg komnar þótt óvíst sé hvort þeim viðræðum ljúki með samkomulagi. Klukkan eitt var síðan opnað fyrir viðskiptin á ný og hefur gengi hlutabréfa fyrirtækisins hækkað verulega í Kauphöllinni og er nú 42.

Afkoma BNbank batnar

Hagnaður BNbank á fyrsta ársfjórðungi 2005 nam 603 milljónum íslenskra króna en bankinn er í eigu Íslandsbanka sem hagnaðist um þrjá milljarða á fyrsta ársfjórðungi. Um er að ræða talsverðan bata í rekstri BNbank frá síðasta ársfjórðungi síðasta árs.

Hugsanleg yfirtaka á Skandia

Skandia gæti orðið yfirtekið af Old Mutual, suður-afrísku tryggingarfélagi sem starfar meðal annars einnig í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fjármálasérfræðingar álíta að Old Mutual sjái veruleg kauptækifæri í gegnum þann hluta Skandia sem starfar á breskum markaði.

Nýr framkvæmdastjóri Iceland Express

Í kvöld var tilkynnt að Birgir Jónsson, 31 árs rekstrarhagfræðingur hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Iceland Express. Birgir, sem undanfarna mánuði hefur gegnt starfi sölu og markaðsstjóra félagsins, tekur við af Almari Erni Hilmarssyni sem nýlega hóf störf sem forstjóri norræna flugfélagsins Sterling, systurfélags Iceland Express.

Neysluverðsvísitalan lækkar

Neysluverðsvísitalan lækkaði á milli mánaða. Lækkunin nemur 0,54%. Lækkunina má meðal annars rekja til harðrar verðsamkeppni á matvörumarkaði sem reyndar ríkir enn en verð á dagvöru lækkaði um 4% á milli tímabila. Þá lækkaði eigið húsnæði í vísitölu neysluverðs um 1,4%.

Sjá næstu 50 fréttir