Fleiri fréttir

Englendingar komnir í 2-0

Englendingar virðast vera að finna sig ágætlega undir stjórn Steve McClaren, en liðið er komið í 2-0 gegn Grikkjum eftir 30 mínútur á Old Trafford. Það voru Chelsea mennirnir John Terry og Frank Lampard sem skoruðu mörk enska liðsins sem hefur ráðið ferðinni í leiknum.

Andy Reid til Charlton

Írski landsliðsmaðurinn Andy Reid ákvað í dag að færa sig um set í Lundúnum þegar hann gekk í raðir Charlton frá Tottenham í ensku úrvalsdeildinni. Reid gekk í raðir Tottenham frá Nottingham Forest í janúar í fyrra, en náði aldrei að festa sig í sessi hjá liðinu. Reid hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Charlton og er kaupverðið sagt geta orðið allt að þremur milljónum punda.

England - Grikkland að hefjast í beinni á Sýn

Vináttuleikur Englendinga og Grikkja í knattspyrnu hefst núna klukkan 19 og verður í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn. Leikurinn fer fram á Old Trafford í Manchester og er þetta fyrsti leikur enska liðsins undir stjórn Steve McClaren.

Markalaust í Austurríki

U-21 árs landslið Íslands gerði markalaust jafntefli við Austurríki á útivelli í dag í leik liðanna í forkeppni EM. Íslenska liðið leikur í riðli með Austurríkismönnum og Ítölum, en hvert lið spilar aðeins tvo leiki í riðlinum og sigurvegari hans kemst í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Íslenska liðið mætir því Ítalska hér heima 1. september.

Schumacher þénar sem aldrei fyrr

Þó þýski ökuþórinn Michael Schumacher hafi oft verið í betri málum á kappakstursbrautinni virðist hann enn halda góðum dampi hvað varðar tekjur. Schumacher tekur gott stökk á lista tekjuhæsta fólks úr röðum skemmtikrafta og íþróttamanna á nýútkomnum lista Forbes.

Hargreaves er ekki til sölu

Forráðamenn Þýskalandsmeistara Bayern Munchen voru fljótir að bregðast við þeim tíðindum sem bárust fyrr í dag þess efnis að enski landsliðsmaðurinn Owen Hargreaves væri á leið til Manchester United. Framkvæmdastjóri Bayern segir málið einfalt - Hargreaves sé alls ekki til sölu.

Mayweather mætir Baldomir

Bandaríski hnefaleikakappinn Floyd Mayweather mun mæta WBC meistaranum í veltivigt, Carlos Baldomir, í hringnum þann 4. nóvember næstkomandi. Bardaginn fer fram í Las Vegas í Bandaríkjunum. Mayweather er taplaus á ferlinum og hefur unnið 24 af 36 bardögum sínum á rothöggi.

Green kominn til West Ham

West Ham hefur nú formlega gengið frá kaupum á enska landsliðsmarkverðinum Robert Green fyrir um 2 milljónir punda, eftir að leikmaðurinn samdi um kaup og kjör og stóðst læknisskoðun. Green hefur verið lengi frá vegna meiðsla, en segist hlakka til þess að vinna sér sæti í liðinu þar sem fyrir eru menn eins og Roy Carroll, fyrrum markvörður Manchester United.

Harðlega gagnrýndur eftir leikinn í gær

Luis Aragones fékk það óþvegið í fjölmiðlum í heimalandinu í gærkvöldi eftir að hans menn þurftu að sætta sig við markalaust jafntefli gegn íslenska landsliðinu í æfingaleik þjóðanna á Laugardalsvelli. Fyrirsagnir spænsku blaðanna sögðu sína sögu um álit þarlendra á úrslitunum.

McFadden framlengir við Everton

Skoski landsliðsmaðurinn James McFadden hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið Everton. McFadden er 23 ára gamall framherji og hefur skorað 10 mörk fyrir félagið síðan hann gekk í raðir þess frá Motherwell í heimalandi sínu árið 2003.

Bandaríkjamenn völtuðu yfir Suður-Kóreu

Bandaríkjamenn spiluðu í gærkvöld sinn síðasta undirbúningsleik fyrir HM í Japan sem hefst á laugardag þegar þeir völtuðu yfir Suður-Kóreu 116-63 í Seúl. Bandaríska liðið hefur því unnið alla fimm undirbúningsleiki sína fyrir mótið. LeBron James var stigahæstur í liði Bandaríkjamanna með 23 stig, þar af 19 í fyrri hálfleik.

Vill ná góðum úrslitum í kvöld

Steve McClaren hefur farið þess á leit við leikmenn sína að þeir nái góðum úrslitum og sýni úr hverju þeir eru gerðir í kvöld þegar liðið mætir Grikkjum í æfingaleik á Old Trafford í Manchester. Þetta er fyrsti leikur McClaren sem landsliðsþjálfara og fyrsti leikur enska liðsins síðan það var slegið úr keppni á HM í sumar. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn klukkan 19.

Ísland upp um eitt sæti

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu færist upp um eitt sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem birtur var í dag. Íslenska liðið var í 107. sæti fyrir leikinn við Spánverja í gær, en er nú í því 106. Þess má til gamans geta að spænska liðið er í sjöunda sæti listans eftir sem áður, en Brasilíumenn verma toppsætið á listanum. Ítalir eru í öðru sæti listans og Argentínumenn í því þriðja.

Fimm leikmenn í bann

Aganefnd KSÍ kom saman í gær og úrskurðaði fimm leikmenn úr Landsbankadeild karla í leikbann. Guðmundur Sævarsson úr FH fékk tveggja leikja bann fyrir brottvísun sína í leik FH og Fylkis. Eyjamennirnir Páll Hjarðar og Paul Garner fengu eins leiks bann, líkt og Óðinn Árnason úr Grindavík og Jón Guðbrandsson úr Víkingi.

Hargreaves íhugar tilboð Man Utd

Enski landsliðsmaðurinn Owen Hargreaves hjá Bayern Munchen segist nú vera að íhuga tilboð frá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United. Hargreaves hefur nýverið skrifað undir framlengingu á samningi sínum við þýska liðið, en segist ekki geta annað en hugsað sig vel um þegar lið eins og Manchester United sýni honum áhuga.

Ísland í 8. sæti eftir fyrri leikinn

Ísland vann Lúxemborg 22-8 í fyrri leik dagsins á Evrópumeistaramótinu í Bridge. Ísland er í 8. sæti á mótinu með 150 stig og vantar aðeins 4 stig til að ná 6. sætinu sem gefur leikheimild á heimsmeistaramótinu í Bridge. Leikur Íslands og Spánar stendur nú yfir.

Valdi Juventus fram yfir AC Milan

Gianluigi Buffon, landsliðsmarkvörður heimsmeistara Ítala, hefur ákveðið vera um kyrrt hjá Juventus sem fyrr í sumar var dæmt niður í Seríu B vegna hneykslismálsins þar. Eins og svo margir aðrir leikmenn liðsins var búist við því að hann færi frá félaginu.

Ítalir reiðir út í Shevchenko

Ítalskir stuðningsmenn AC Milan eru mjög reiðir eftir að hann virtist kyssa treyju Chelsea þegar hann fagnaði marki sínu gegn Liverpool í leiknum um Samfélagsskjöldinn um helgina. Stendur deilan einnig um hvort hann hafi kysst treyju liðsins eða merki þess.

Markalaust jafntefli við Spánverja

Íslendingar og Spánverjar skildu jafnir 0-0 í æfingaleik í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld. Íslenska liðið varðist sóknarlotum hærra skrifaðra andstæðinga sinna með ágætum og hefði með smá heppni geta skorað mark.

Walcott skoraði í sínum fyrsta leik

Undrabarnið Theo Walcott hjá Arsenal spilaði í kvöld sinn fyrsta leik með U-21 árs liði Englendinga og skoraði mark í leiknum eftir aðeins þrjár mínútur. Mark Walcott nægði þó ekki, því enska liðið náði aðeins 2-2 jafntefli við Moldavíu. Walcott varð í kvöld yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir enska U-21 árs landsliðið, því hann er aðeins rúmlega 17 ára gamall.

Slæm vika hjá van der Meyde

Andy van der Meyde, leikmaður Everton, hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu, en brotist var inn í íbúð kappans um helgina. Fjölda verðmætra muna var stolið í innbrotinu, meira að segja hundinum hans Mac.

Markalaust í hálfleik á Laugardalsvelli

Nú hefur verið flautað til hálfleiks í vináttuleik Íslendinga og Spánverja í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvelli, en enn hefur ekkert mark verið skorað í leiknum. Spánverjar tefla fram sókndjörfu liði í dag, en íslenska liðinu hefur tekist með ágætum að halda aftur af þeim það sem af er.

Jóhannes Karl nálægt því að skora

Leikur Íslendinga og Spánverja er nú hafinn og það er Jóhannes Karl Guðjónsson sem hefur átt besta færi leiksins til þessa. Jóhannes reyndi ótrúlegt skot af um 60 metra færi sem Jose Reina náði naumlega að slá yfir spænska markið og þurfti að skipta um markmannshanska eftir tilþrifin. Þetta gerðist á 13. mínútu leiksins og skömmu síðar átti Luis Garcia gott færi við íslenska markið en Árni Gautur sá við honum.

City samþykkir tilboð Boro í Distin

Forráðamenn Manchester City hafa samþykkt kauptilboð Middlesbrough í miðjumanninn Sylvain Distin og er hann sagður í viðræðum um kaup og kjör þessa stundina. Boro hefur lengi verið á höttunum eftir franska leikmanninum sem bar fyrirliðabandið hjá City um tíma á síðustu leiktíð og þótti standa sig með prýði.

Friðrik Ingi ráðinn framkvæmdastjóri KKÍ

Friðrik Ingi Rúnarsson, sem verið hefur þjálfari meistaraflokks Grindavíkur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands. Friðrik Ragnarsson, fyrrum þjálfari Njarðvíkinga, hefur verið ráðinn til starfa sem þjálfari Grindvíkinga í stað nafna síns Rúnarssonar. Þetta kom fram í kvöldfréttum NFS.

Byrjunarlið Íslands klárt

Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari hefur valið byrjunarlið sitt fyrir leikinn gegn Spánverjum á Laugardalsvelli í kvöld. Íslenska liðið spilar leikkerfið 4-4-2 og verða þeir Heiðar Helguson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson í fremstu víglínu.

Rooney og Scholes fá þriggja leikja bann

Wayne Rooney og Paul Scholes, leikmenn Manchester United, þurfa báðir að taka út þriggja leikja bannið sem þeir fengu upphaflega fyrir að láta reka sig af velli í æfingaleik gegn Porto á dögunum, en áfrýjun þeirra var vísað frá í dag. Bann þeirra tekur gildi þann 23. ágúst og verða þeir félagar því í liði United sem mætir Fulham í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar, en missa af næstu þremur leikjum gegn Charlton, Watford og Tottenham.

Redknapp í vandræðum með sóknarmenn

Harry Redknapp, stjóri Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni, viðurkennir að hann sé í miklum vandræðum með að manna sóknina hjá sér fyrir upphaf tímabilsins sem fer af stað um helgina. Redknapp er nú að reyna að klófesta sóknarmanninn Kanu sem er enn með lausa samninga eftir að lið hans West Brom féll úr úrvalsdeildinni í vor.

Nedved spilar sinn síðasta leik fyrir Tékka

Miðjumaðurinn Pavel Nedved hefur tilkynnt að hann ætli að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir leik Tékka og Serba annað kvöld. Nedved segist í framtíðinni ætla að einbeita sér að því að spila með liði Juventus og segir tíma til kominn til að hleypa yngri mönnum að hjá landsliðinu.

Ballack vonast til að verða klár á sunnudag

Miðjumaðurinn Michael Ballack hjá Chelsea vonast enn til að geta verið með á sunnudaginn þegar Chelsea mætir Manchester City í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni. Ballack fór meiddur af velli í leiknum um samfélagsskjöldinn um síðustu helgi og verður ekki með landsliði Þjóðverja sem tekur á móti Svíum annað kvöld.

Rúm 60% telja Íslendinga ekki eiga séns

Rúm 60% lesenda Vísis telja að Íslendinga eigi ekki séns í sterkt lið Spánverja í kvöld. Spánverjar eru með eitt af bestu knattspyrnulandsliðum heims um þessar mundir. Þeir féllu óvænt út í 16-liða úrslitum á HM nú í sumar. Tæp 40% lesenda telja hins vegar að Íslendingar eigi möguleika á að ná góðum úrslitum.

Isaksson kominn til City

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City hefur gengið formlega frá samningi við sænska landsliðsmarkvörðinn Andreas Isaksson frá franska liðinu Rennes. Isaksson á að baki 42 landsleiki og er 24 ára gamall. Isaksson mun því taka stöðu David James í marki City, en James gekk á dögunum í raðir Portsmouth.

Gaf rúman milljarð króna til spítala í Kongó

Körfuboltamaðurinn Dikembe Mutombo sem leikið hefur í NBA í 15 ár hefur lagt til rúman milljarð króna til að koma á fót stóru sjúkrahúsi í heimaborg sinni Kinshasa í Kongó. Sjúkrahúsið verður skírt í höfuðið á móður Mutombo sem lést árið 1997 og mun hýsa um 300 sjúkrarúm.

Dean Ashton ökklabrotnaði á æfingu

Dean Ashton, leikmaður West Ham, sem á dögunum var valinn í enska landsliðshópinn ökklabrotnaði á æfingu. Það var reiknað með að hann yrði í byrjunarliði Englendinga gegn Grikkjum. Það hefði verið fyrsti leikur hans fyrir England.

Gerrard verður á hægri kanti

Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englendinga, er strax farinn að valda nokkru fjaðrafoki í starfi sínu en hann stýrir enska liðinu í fyrsta sinn í æfingaleik gegn Grikkjum annað kvöld. Leikurinn verður spilaður á Old Trafford í Manchester og verður sýndur beint á Sýn.

Á leið til Real Madrid

Nú virðist fátt geta komið í veg fyrir að spænski landsliðsmaðurinn Jose Antonio Reyes hja Arsenal gangi í raðir Real Madrid. Reyes segir í samtali við breska fjölmiðla í dag að það sé draumur hans að spila fyrir Real og þakkar knattspyrustjóra sínum fyrir að greiða sér leiðina aftur heim til Spánar.

Marca tilkynnti líkleg byrjunarlið í gær

Blaðamaður spænska íþróttablaðsins Marca gaf upp líkleg byrjunarlið Íslands og Spánar í gær. Samkvæmt því tefla Spánverjar fram gríðarlega sterku liði með þrjá sterka framherja í fremstu víglínu, þá David Villa, Fernando Torres og Raúl. Marca er hins vegar ekki betur upplýst en svo, að Brynjar Björn Gunnarsson er í vörn Íslendinga. Samkvæmt heimildum Vísis er Eyjólfur Sverrisson ekki tilbúinn með lið sitt fyrr enn um kaffileytið. Liðin sem Marca setur upp eru.

Ísland í 13. sæti eftir fimm umferðir

Íslendingar eru í 13. sæti eftir fimm umferðir af 33 í Evrópumótinu í Bridge. Íslendingar hafa fengið 80 stig af þeim 125 sem í boði voru. Ítalir eru efstir með 109 stig, Svíar koma næstir með 97,5 stig og Þjóðverjar eru í þriðja sæti með 93 stig.

Nýtt og betra gras.is

Fótboltavefurinn Gras.is hefur opnað nýjan vef eftir miklar breytingar. Vefurinn hefur verið endurbættur frá grunni og nýjungum bætt við. Sem dæmi eru boltavaktin og draumadeildin komin á gras.is í samstarfi við Vísi.

Steve Staunton ógnað af byssumanni

Steve Staunton, landsliðsþjálfara Íra í knattspyrnu, slapp með skrekkinn í kvöld þegar maður vopnaður byssu vatt sér að honum við hótelið sem írska landsliðið gistir á í Dublin um þessar mundir. Breska sjónvarpið greindi frá þessu nú undir kvöldið.

Drew Gooden semur við Cleveland

Framherjinn Drew Gooden hefur framlengt samning sinn við NBA-lið Cleveland Cavaliers til þriggja ára og hefur þar með bundið enda á miklar vangaveltur sem verið höfðu um framtíð hans. Talið er að Gooden muni fá um 23 milljónir dollara fyrir samning sinn og hefur forráðamönnum Cleveland nú tekist að framlengja samninga allra lykilmanna sinna á síðustu tveimur árum.

Scott Carson lánaður til Charlton

Scott Carson, markvörður Liverpool, hefur verið lánaður til Charlton út leiktíðina og mun þar væntanlega berjast um sæti í byrjunarliðinu í vetur. Carson er í U-21 árs landsliði Englendinga, líkt og kollegi hans Chris Kirkland hjá Liverpool sem einnig er í láni frá félaginu.

Montoya leiddist hjá McLaren

Juan Pablo Montoya segir í viðtali við dagblað í heimalandi sínu Kolumbíu að ástæðan fyrir því að hann ákvað að hætta í Formúlu 1 og snúa sér að Nascar hafi verið sú að honum hafi verið farið að leiðast.

Gilbert Arenas fer ekki á HM

Forráðamenn bandaríska landsliðsins í körfubolta tilkynntu í dag að bakvörðurinn Gilbert Arenas frá Washington Wizards muni ekki spila með liðinu á HM í Japan sem hefst 19. ágúst nk, eftir að hann tognaði á nára á æfingu í morgun.

Snýr sig fimlega út úr yfirlýsingum sínum

Ramon Calderon, nýráðinn forseti spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, hefur viðurkennt að ekkert verði af loforðum hans um að fá þá Kaka, Cesc Fabregas og Arjen Robben til félagsins eins og hann lýsti yfir í forsetakosningunum fyrr í sumar.

Sjá næstu 50 fréttir