Fleiri fréttir

Langt komið með að landa Evra

David Gill, yfirmaður Manchester United er nú staddur í Mónakó þar sem hann að sögn félagsins hefur að mestu gengið frá kaupum á franska landsliðsmanninum Patrice Evra. Leikmaður þessi er 24 ára gamall og vill ólmur fara frá Mónakó. Hann hefur verið orðaður mest við Manchester United og Inter á Ítalíu, en nú virðist sem enska liðið sé komið langt með að ganga frá kaupunum.

Njarðvík og Grindavík töpuðu

Það urðu heldur betur óvænt úrslit í úrvalsdeild karla í kvöld þegar heil umferð var leikin. Efsta lið deildarinnar, Njarðvík, þurfti að sætta sig við tap í Borgarnesi gegn frísku liði Skallagríms 96-78. Þá lágu grannar þeirra í Grindavík mjög óvænt fyrir botnliði Hauka í Hafnarfirði, 98-82.

Yfirburðir Chelsea endast ekki lengi

Gary Neville segir að þó vissulega líti út fyrir að Chelsea muni rúlla upp ensku úrvalsdeildinni í ár eins og í fyrra, muni yfirburðir liðsins ekki vara lengi og bendir á önnur lið sem hafi náð að verða meistarar en hrunið í kjölfarið.

Andy Johnson er ekki til sölu

Forráðamenn Crystal Palace hafa enn eina ferðina séð ástæðu til að gefa út yfirlýsingu þess efnis að fyrrum landsliðsframherjinn Andy Johnson sé alls ekki til sölu. Johnson, sem fór á kostum með Palace í úrvalsdeildinni í fyrra þó liðið félli aftur í fyrstu deild, hefur verið mjög eftirsóttur af liðum í úrvalsdeildinni allar götur síðan Palace féll.

Riera klár í slaginn

Manchester City hefur staðfest að spænski leikmaðurinn Albert Riera sé nú formlega genginn í raðir félagsins að láni frá Espanyol og verður hjá enska liðinu út leiktíðina. Riera gæti orðið klár í slaginn fyrir bikarleik City við Scounthorpe um helgina. Stuart Pearce, stjóri City, er mjög ánægður að vera loks búinn að landa leikmanninum, en hann hefur lengið verið aðdáandi hans.

Mourinho og Ferguson sleppa vel

Enska knattspyrnusambandið hefur afráðið að refsa þeim Jose Mourinho og Alex Ferguson ekki fyrir ummæli sín í garð leikmanna og dómara í byrjun desember. Ferguson dró heilindi Rob Styles dómara í efa eftir leik við Everton, en Mourinho kallaði einn leikmanna Wigan svindlara. Þeim félögum verður þó gert að útskýra mál sitt fyrir sambandinu og hafa verið beðnir að gæta tungu sinnar í framtíðinni.

Lampard verður aldrei seldur

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að miðjumaðurinn Frank Lampard verði aldrei seldur frá ensku meisturunum og segist efast um að hann vilji taka gylliboðum Barcelona og Real Madrid á Spáni, sem vitað er að hafa augastað á landsliðsmanninum enska.

Leikur við Jamaica og Úrugvæ

Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að enska landsliðið í knattspyrnu muni leika æfingaleiki við Jamaica og Úrúgvæ í undirbúningi sínum fyrir HM í Þýskalandi í sumar. England leikur við Úrúgvæ á Anfield þann 1. mars í vor og mætir svo Jamaica þann 3. júní á nýja Wembley-leikvangnum, en það verður síðasti leikur liðsins áður en HM hefst.

Á höttunum eftir Meite

Enska úrvalsdeildarliðið Newcastle er á höttunum eftir varnarmanninum Abdoulaye Meite hjá Marseille, en hann er landsliðsmaður frá Fílabeinsströndinni í Afríku. Vefur Sky Sports fullyrðir að Newcastle sé í viðræðum við franska félagið um að fá hann til reynslu á næstunni og hafi kaup í huga, en þó gæti hugsanleg þáttaka hans í Evrópukeppninni orðið til að tefja nokkuð fyrir í viðræðunum.

Hafa áhuga á Marek Suchy

Forráðamenn Tottenham eru nú í viðræðum við Slavia Prag með það fyrir augum að fá hinn unga miðjumann Marek Suchy til liðs við sig. Suchy þessi er aðeins 17 ára gamall og hefur vakið hrifningu útsendara enska liðsins, sem reyna nú að fá hann til reynslu. Tottenham á gott samstarf við Slavia Prag og er einn leikmanna liðsins í láni hjá tékkneska liðinu sem stendur.

De Villiers í forystu

Suður-Afríkumaðurinn Giniel de Villiers hefur náð forystu í Paris-Dakar rallinu eftir að eknar hafa verið 6 dagleiðir. Villiers hafnaði í þriðja sæti á sjöttu leiðinni og hefur því náð 22 sekúndna forskoti á félaga sinn Carlos Sainz hjá Volkswagen-liðinu. Thierry Magnaldi sigraði á 6. leiðinni, en er engu að síður ekki á meðal fimm efstu manna í heildarkeppninni.

Heil umferð í kvöld

Sex leikir eru á dagskrá í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld. Skallagrímur tekur á móti toppliði Njarðvíkur, Hamar/Selfoss mætir Snæfelli, botnlið Hauka fær Grindvíkinga í heimsókn, Þór mætir Hetti, Keflavík tekur á móti ÍR og KR fær Fjölni í heimsókn. Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15.

Kaupin á Vidic komin í gegn

Manchester United hefur nú formlega gengið frá kaupum á serbneska varnarmanninum Nemanja Vidic frá Spartak Moskvu fyrir sjö milljónir punda. Vidic er 24 ára gamall landsliðsmaður og hefur nú fengið atvinnuleyfi á Englandi, en hann mun væntanlega koma til liðsins á morgun.

Iverson vill vinna gull

Allen Iverson hefur lýst yfir áhuga sínum á að vera valinn í bandaríska landsliðið í körfubolta fyrir heimsmeistaramótið í ár og Ólympíuleikana árið 2008. Hann lýsti þessu yfir við Jerry Colangelo, framkvæmdastjóra liðsins á dögunum.

Tæklingin verður skoðuð af aganefnd

Fulltrúar aganefndar enska knattspyrnusambandsins hafa nú sett sig í samband við Alan Wiley dómara og beðið hann um skýrslu vegna ljótrar tæklingar David Sommeil, leikmanns Manchester City, á bakvörðinn Lee hjá Tottenham í leik liðanna í gærkvöldi.

Allardyce reiður

Sam Allardyce, stjóri Bolton, brást reiður við þegar hann var spurður út í þrálátan orðróm sem enn er kominn á kreik um að hann verði næsti stjóri Newcastle. Mikið hefur verið rætt um framtíð Graeme Souness í stjórastól Newcastle og vilja margir meina að hann verði rekinn fljótlega, þar sem gengi liðsins hefur verið langt undir væntingum.

Alfreð látinn fara

Alfreð Gíslasyni hefur verið vikið úr starfi sem þjálfara úrvalsdeildarliðsins Magdeburg, þar sem hann hefur verið við störf síðan 1999. Alfreð hefur náð góðum árangri á þessum tíma með liðið, en gengi liðsins hefur þó verið upp og niður í vetur. Alfreð hefur þegar gert samning um að taka við liði Gummersbach árið 2007.

Kominn til Birmingham

Sóknarmaðurinn Chris Sutton hefur gengið í raðir Birmingham í ensku úrvalsdeildinni á frjálsri sölu. Hann komst að niðurstöðu um að fá að fara eftir nokkrar viðræður við forráðamenn Glasgow Celtic og er því kominn á kunnuglegar slóðir á ný, því hann spilaði lengi á Englandi áður en hann fór til Skotlands. Hann skoraði 86 mörk í 199 leikjum fyrir Celtic á ferlinum.

LeBron James með stórleik

LeBron James átti stjörnuleik þegar lið hans Cleveland Cavaliers bar sigurorð af Milwaukee Bucks í NBA deildinni í nótt 91-84. James skoraði 32 stig, þar af 17 í fjórða leikhluta, hirti 11 fráköst, gaf 11 stoðsendingar og stal 5 boltum. Liðið varð þó fyrir áfalli í leiknum, því Larry Hughes fingurbrotnaði og verður frá í 6-8 vikur. Michael Redd var atkvæðamestur hjá Milwaukee með 28 stig.

Tottenham sigraði Manchester City

Tottenham styrkti stöðu sína í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld þegar liðið vann góðan útisigur á Manchester City 2-0. Mido og Robbie Keane gerðu mörk Tottenham, sem var betri aðilinn í leiknum og vann sanngjarnan sigur.

Heiðar Davíð og Ólöf María kylfingar ársins

Golfsamband Íslands útnefndi í dag Heiðar Davíð Bragason og Ólöfu Maríu Jónsdóttur kylfinga ársins 2005. Davíð varð Íslands- og stigameistari á árinu, en Ólöf varð sem kunnugt er fyrsti íslenski kylfingurinn til að tryggja sér þáttöku á evrópsku mótaröðinni á árinu og spilaði á 12 slíkum á síðasta ári.

Olisadebe kominn til Portsmouth

Enska úrvalsdeildarliðið Portsmouth hefur náð samkomulagi við pólska landsliðsmanninn Emmanuel Olisadebe og mun hann verða með liðinu út leiktíðina. Þetta kemur nokkuð á óvart, því enska liðið hafði sent leikmanninn aftur til Pananthiakos á dögunum eftir að hafa verið með hann til reynslu í nokkra daga og talið var að ekkert yrði af viðskiptunum.

Eftirsóttur í ensku úrvalsdeildinni

Umboðsmaður framherjans Chris Sutton hjá Glasgow Celtic segir að nokkur lið í ensku úrvalsdeildinni séu búin að hafa samband við sig varðandi kaup á leikmanninum. Samningur Sutton við Celtic rennur út í sumar og sagt er að Everton og Portsmouth séu á meðal þeirra liða sem eru í viðræðum um að fá hann til liðs við sig.

Kromkamp kominn, Agger á leiðinni

Enska úrvalsdeildarliðið Liverpool hefur nú gengið frá samningi við hollenska bakvörðinn Jan Kromkamp frá Villareal, en liðið fékk hann í skiptum fyrir Josemi á dögunum. Þá er félagið við það að ganga frá samningi við danska landsliðsmanninn Daniel Agger, en það hefur þó enn ekki verið staðfest.

Hættur fasistakveðjum

Ítalinn Paolo Di Canio hjá Lazio segist vera hættur fasistakveðjum sínum á knattspyrnuvellinum, en hann var á dögunum sektaður og settur í leikbann vegna þessa. "Ég hugsaði málið yfir jólin og hef ákveðið að setja hagsmuni Lazio framar mínum eigin," sagði Di Canio, en benti á að hann stæði þó fast á pólitískum skoðunum sínum engu að síður.

Manchester City - Tottenham í kvöld

Einn leikur er á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Manchester City tekur á móti Tottenham á City of Manchester Stadium. City er sem stendur um miðja deild, en Tottenham situr nokkuð óvænt í fjórða sæti deildarinnar og getur minnkað forskot Liverpool í þriðja sætinu niður í eitt stig með sigri í kvöld.

Heimir í landsliðið í stað Baldvins

Baldvin Þorsteinsson hefur þurft að draga sig út úr íslenska landsliðshópnum fyrir EM í Sviss síðar í mánuðinum vegna veikinda. Viggó Sigurðsson hefur í stað hans valið Heimir Örn Árnason, leikmann Fylkis.

Hefur augastað á Ugo Ehiogu

Bryan Robson, stjóri West Brom í ensku úrvalsdeildinni, hefur fullan hug á að reyna að lokka fyrrum landsliðsmanninn Ugo Ehiogu frá Middlesbrough á næstu dögum. Robson keypti Ehiogu til Boro á sínum tíma fyrir metfé þegar hann var stjóri liðsins, en Ehiogu hefur lítið fengið að spreyta sig með liði sínu í vetur.

Schalke ræður nýjan þjálfara

Þýska úrvalsdeildarliðið Schalke tilkynnti í dag að aðstoðarþjálfari liðsins, Mirko Slomka, hefði verið gerður að nýjum aðalþjálfara liðsins eftir að Ralf Rangnick var rekinn á dögunum. Schalke er í fjórða sæti í þýsku úrvalsdeildinni, en þar á bæ eru kröfurnar miklar um árangur.

Sainz enn í forystu

Spánverjinn Carlos Sainz heldur enn forskoti sínu í París-Dakar rallinu eftir að hann hafnaði í níunda sæti á fimmtu sérleiðinni í Marokkó í dag. Sainz ekur Volkswagen Touareg bifreið og hefur verið í nokkrum sérflokki það sem af er. Frakkinn Stephane Peterhansel sigraði á fimmtu sérleiðinni í dag og er í áttunda sæti í heildarkeppninni.

Honda er betra en Ferrari

Brasilíski ökuþórinn Rubens Barrichello sem nýverið gekk í raðir Honda-liðsins í Formúlu 1, segir að lið Honda sé sterkara en Ferrari í dag og það hafi orðið til þess að hann ákvað að skipta um lið í sumar.

Queudrue frá í tvo mánuði

Varnarmaðurinn Franch Queudrue hjá Middlesbrough er meiddur á hné og verður frá í sex til átta vikur. Steve McClaren, stjóri Middlesbrough segir að enn eigi eftir að koma í ljós hvort leikmaðurinn þarf í aðgerð, en ljóst sé að hann verði lengi frá engu að síður. Queudrue hefur verið fastamaður í liði Middlesbrough í vetur og verður hans því sárt saknað að sögn McClaren.

Wenger og Ferguson játa sig sigraða

Arsene Wenger og Alex Ferguson, stjórar Arsenal og Manchester United, hafa kastað inn hvíta handklæðinu í baráttunni um enska meistaratitilinn og viðurkenna báðir að lið þeirra eigi ekki möguleika á að ná Chelsea í vetur.

Fimmta tap Lakers í röð

LA Lakers tapaði fimmta leik sínum í röð í nótt þegar liðið lá fyrir Utah Jazz, en þetta var síðari leikurinn sem Kobe Bryant þurfti að taka út leikbann fyrir olnbogaskot í leik á dögunum. Utah sigraði 90-80. Mehmet Okur skoraði 20 stig og hirti 10 fráköst fyrir Utah og Andrei Kirilenko skoraði 14 stig, gaf 9 stoðsendingar, hirti 8 fráköst, varði 7 skot og stal 6 boltum. Lamar Odom skoraði 25 stig fyrir Lakers.

Scott Parker frá í nokkrar vikur

Scott Parker hjá Newcastle hefur þurft að gangast undir smávægilega aðgerð á hné og verður frá keppni í þrjár til fimm vikur. Hinn 25 ára gamli Parker meiddist í leik þann 17. desember og er nú nýjasta nafnið á meiðslalista liðsins, sem hefur verið afar óheppið í þeim efnum í vetur.

Farinn til Benfica

Franski miðjumaðurinn Lauren Robert er farinn frá Portsmouth, þar sem hann hefur leikið sem lánsmaður frá Newcastle í vetur og er genginn í raðir portúgalska liðsins Benfica þar sem hann hittir fyrir þjálfarann Ronald Koeman. Samningur Robert er til þriggja og hálfs árs.

Defoe verður í HM-hóp Englands

Martin Jol, knattspyrnustjóri Tottenham, segist þess fullviss að Jermain Defoe fái fast sæti í HM-hóp Englendinga í sumar þó hann sé ekki fastamaður í byrjunarliði Tottenham um þessar mundir.

Souness orðinn leiður á meiðslunum

Graeme Souness, stjóri Newcastle, á ekki orð yfir öllum meiðslunum sem hrjá lið hans um þessar mundir, en hann á í nokkrum erfiðleikum með að stilla upp sterku liði um þessar mundir, aðallega vegna meiðsla lykilmanna.

Fer ekki í Afríkukeppnina

Miðjumaðurinn sterki Michael Essien fer ekki með landsliði sínu í Afríkukeppnina vegna meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn West Ham á mánudaginn. Þetta er mikið áfall fyrir landslið Ghana, en Jose Mourinho sagði á heimasíðu Chelsea í gær að tilgangslaust væri fyrir leikmanninn að fara á mótið því hann gæti ekki spilað á næstunni og því væri hann betur settur í endurhæfingu á Englandi.

Arsenal saknar mín

Miðjumaðurinn Patrick Vieira er ekki í nokkrum vafa um að gömlu félagar hans í Arsenal sakni hans, en þrátt fyrir orðróm á dögunum um að Vieira væri aftur á leið til Englands, segir sá franski að hann ætli sér að ljúka ferlinum hjá Juventus á Ítalíu.

Hefur áhyggjur af gengi Arsenal

Franski framherjinn Thierry Henry hjá Arsenal vill enn ekki ræða framtíð sína hjá félaginu, en segir að óstöðugleiki liðsins í vetur sé einmitt ástæða þess að hann hafi alltaf sagt að hann vildi ekki ræða sín mál við félagið fyrr en í sumar.

Weiss rekinn frá Seattle

NBA-lið Seattle Supersonics rak í gær þjálfara sinn Bob Weiss og er aðstoðarmaður hans Bob Hill tekinn við þjálfun liðsins þangað til eftirmaður Weiss er fundinn. Gengi Seattle hefur verið upp og ofan það sem af er vetri en illa hefur gengið að byggja á góðum árangri sem náðist svo óvænt í fyrra, þegar liðið fór lengra en nokkurn óraði fyrir í úrslitakeppninni.

Eiður til London í einkaþotu Baugs

Eiður Smári Guðjohnsen var krýndur íþróttamaður ársins við hátíðlega athöfn á Grand Hótel í gær. Þessi frábæri knattspyrnumaður hefur staðið í ströngu með Chelsea yfir hátíðirnar og fengið lítið frí. Hann flaug til landsins með Flugleiðavél seinni partinn í gær og stoppaði stutt því Chelsea vildi fá hann aftur á æfingu í dag.

Stoudamire spilar ekki meira í ár

Spútniklið Memphis Grizzlies hefur orðið fyrir gríðarlegu áfalli því leikstjórnandinn Damon Stoudamire fór í aðgerð í gær vegna hnémeiðsla og nú þykir víst að hann muni ekki leika meira með liðinu á þessu tímabili. Stoudamire var kjörinn nýliði ársins árið 1996 þegar hann lék með Toronto Raptors. Hann var með um 12 stig og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur með Memphis.

Moye fær þriggja leikja bann

Bandaríkjamaðurinn A.J. Moye hjá Keflavík var í gær úrskurðaður í þriggja leikja bann í úvalsdeild karla í körfubolta fyrir að gefa landa sínum Jeb Ivey ljótt olnbogaskot í viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur þann 30. desember sl.

Sjá næstu 50 fréttir