Handbolti

„Tveggja ára barn að labba við sund­laugar­bakkann og enginn gerði neitt“

Sindri Sverrisson skrifar
Logi Geirsson var vonsvikinn eins og aðrir landsmenn eftir tapið gegn Króötum í dag.
Logi Geirsson var vonsvikinn eins og aðrir landsmenn eftir tapið gegn Króötum í dag. Samsett/RÚV/Vilhelm

Logi Geirsson segir það hafa verið erfitt að horfa á leik Íslands gegn Króatíu á EM í handbolta í dag. Hann sagði alla sjá hve einhæfur sóknarleikur liðsins væri. Ólafur Stefánsson sagði sóknina hins vegar hafa gengið vel og að helst mætti setja út á uppleggið í vörninni.

Ísland tapaði leiknum 30-29, eftir að hafa skorað þrjú mörk á örskömmum tíma í lokin, en Króatar höfðu verið 19-15 yfir í hálfleik. Vörn og markvarsla gekk þá skelfilega eins og sérfræðingar RÚV ræddu um í hálfleik, en þeir beindu einnig sjónum sínum að sóknarleiknum í seinni hálfleik í umræðum eftir leik.

„Að skora mark var ótrúlega erfið fæðing hjá okkur fyrir hvert einasta mark,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson á RÚV eftir leik.

„Ef að ekki væri fyrir Gísla Þorgeir þá hefðum við ekki einu sinni fengið marktækifæri. Hann fiskar sex vítaköst og [átta stoðsendingar]. Við fáum bara ekki mark utan af velli og það er ótrúlega erfitt. Þegar það á við, og við erum með Hauk Þrastarson inná, verðum við að geta tíað manninn upp. Þetta verður svo þungt og erfitt,“ sagði Kári Kristján og Logi tók þann bolta á lofti.

„Hvort sem fólk var að horfa á leikinn á Austfjörðum eða Vestfjörðum þá sjá allir hversu einhæfur sóknarleikur þetta er hjá okkur. Mér fannst erfitt að horfa á þennan leik. Mér leið allan leikinn eins og það væri tveggja ára barn að labba við sundlaugarbakkann og enginn gerði neitt. Þannig upplifði ég þetta. Mér fannst stjórnunin á liðinu, eftir lélegan fyrri hálfleik, að það kæmu engar breytingar,“ sagði Logi.

Óli Stef jákvæður um sóknarleikinn

Ólafur sá hins vegar sóknarleikinn í bjartara ljósi og taldi leikinn hafa tapast á varnarleiknum í fyrri hálfleik:

„Við vorum að spila á móti mjög erfiðu varnarliði og gerðum það mjög vel á köflum. Ég hefði viljað sjá meiri áræðni í að keyra hröðu miðjuna og fá auðveld mörk þannig. Það sem kostar okkur þennan sigur, að miklu leyti, eru fyrstu fimmtán mínúturnar í vörninni þar sem við erum ekki alveg mættir og ekki tilbúnir í slaginn. Ekki eins slæmt og í fyrra, en nógu slæmt til að tapa.

Ég hefði viljað prófa lengur, og í seinni hálfleik, að fara mikið áræðnara út og sjá hvað kæmi út úr því. Það er það eina sem ég set út á stjórnina. Að láta [Mateo] Maras, sem í raun og veru getur ekki hreyft sig á löppunum, skora sjö mörk finnst mér bara allt of mikið,“ sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×