Handbolti

„Slepptum ræktinni í dag og fórum í sundleikfimi“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Díönu Dögg hafði gaman að sundleikfiminni.
Díönu Dögg hafði gaman að sundleikfiminni. Federico Gambarini/picture alliance via Getty Images

Stelpurnar okkar urðu fyrir slæmum skelli í gær, í fyrsta leik milliriðilsins á HM gegn Svartfjallalandi. Stemningin virtist algjörlega horfin úr þessu stórskemmtilega liði, en þær endurheimtu gleðina aftur í dag og gerðu það á frekar óhefðbundinn máta.

„Við tókum smá fund áðan og fórum yfir hvað við viljum gera betur, bæði innan leiksins og líka utan vallar. Við viljum ná stemningunni aftur upp, því eins og við vorum í gær er okkur ekki til framdráttar“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir í viðtali hjá hóteli landsliðsins í hádeginu.

„Það var eiginlega alveg glatað, að við skyldum ekki ná stemningunni upp. Þessi gleði og barátta sem við höfum verið að sýna var ekki til staðar í gær“ bætti hún við en hvaða ráða gripu stelpurnar okkar þá til, til að kæta sig við og sækja stemninguna aftur?

„Við tókum gott spjall áðan og förum í göngutúr og svona. Slepptum ræktinni í dag og fórum í sundleikfimi, það var rosa gott og gaman og þétti hópinn aðeins saman.“

Sundleikfimi er, eins og orðið gefur til kynna: leikfimisæfingar framkvæmdar í vatni, hreyfing sem sérstaklega vinsæl meðal eldri borgara.

„Jájá, að sjálfsögðu, og þetta er bara hörkuæfing sko. Þetta kom svolítið á óvart“ sagði Díana þá hlæjandi.

Hún segir leikfimisæfingarnar í sundi hafa hrist hópinn vel saman fyrir slaginn gegn Spáni á morgun.

„Algjörlega og við ætlum okkur bara að vinna“ sagði Díana að lokum en viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: Díana skellti sér í sundleikfimi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×