Handbolti

Þjóð­verjar unnu 26 marka stór­sigur í næsta leik eftir Íslandsleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alina Grijseels og félagar í þýska landsliðinu byrja heimsmeistaramótið vel.
Alina Grijseels og félagar í þýska landsliðinu byrja heimsmeistaramótið vel. Getty/Tom Weller

Þýska kvennalandsliðið í handbolta átti í litlum vandræðum með að landa sínum öðrum sigri á heimsmeistaramótinu.

Liðið er því með fullt hús eftir tvær umferðir en Ísland og Serbía mætast seinna í kvöld.

Þýskaland vann sjö marka sigur á Íslandi í fyrsta leik en fylgdi því eftir með 26 marka stórsigri á Úrúgvæ, 38-12.

Þýsku konurnar voru komnar átta mörkum yfir í hálfleik, 15-7, og héldu áfram að keyra yfir þær úrúgvæsku í seinni hálfleiknum. Seinni hálfleikurinn fór 23-5 fyrir þýska liðið.

Stöður eins og 26-9, 29-10 og 33-11 sáust á töflunni en lokatölurnar urðu 38-12.

Nieke Kühne og Nina Engel voru markahæstar hjá Þjóðverjum með sjö mörk en Antje Döll skoraði sex mörk

Enginn í liði Úrúgvæ skoraði meira en tvö mörk og þýska liðið átti því fimm markahæstu leikmennina í leiknum.

Úrúgvæ virðist vera langlégasta liðið í riðlinum en liðið tapaði með tólf mörkum, 31-19, í fyrsta leik sínum á móti Serbíu.

Lokaleikur liðsins verður á móti Íslandi á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×