Viðskipti innlent

Fast­eigna­markaðurinn „kaup­enda­markaður“ að mati fast­eigna­sala

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leigan er dýrust í Vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur.
Leigan er dýrust í Vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Einar

Um 58 prósent fasteignasala telja fasteignamarkaðinn nú kaupendamarkað og 22 prósent telja markaðinn „mikinn kaupendamarkað“.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Íbúðum á sölu fjölgar enn samkvæmt skýrslunni en í upphafi októbermánaðar voru 5.233 íbúðir til sölu á landinu öllu, þar af 2.134 nýjar íbúðir. Um 3.200 íbúðir voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu, um 1.100 íbúðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og rúmlega 900 annars staðar á landsbyggðinni.

Þinglýstir kaupsamningar voru 930 í ágúst en yfir þúsund í maí, júní og júlí. Veltan á fasteignamarkaði nam rúmlega 72 milljörðum króna og meðalvelta á kaupsamning 77 milljónum króna.

Samkvæmt skýrslunni er það varlegt mat HMS að á bilinu 10.500 til 16.400 íbúðir á landinu hafi ekki verið nýttar til varanlegrar búsetu í október. Það samsvarar á bilinu sex til tíu prósentum af öllum fullbúnum íbúðum.

„Flestar íbúðir í þéttbýli sem ekki eru nýttar til varanlegrar búsetu eru staðsettar í Reykjavík, eða á bilinu 2.815 – 4.790 íbúðir sem samsvarar um 5-8% allra fullbúinna íbúða í þéttbýli Reykjavíkurborgar. Þá eru á bilinu 898 – 1.027 (10-11%) vannýttar íbúðir á Akureyri og á bilinu 676-1.084 (4-7%) í Kópavogi. Í Garðabæ eru á bilinu 362-442 íbúðir sem ekki eru nýttar til varanlegrar búsetu, eða um 5-6% allra fullbúinna íbúða, og í Hafnarfirði eru þær á bilinu 353-783 (3-8%). Í Mosfellsbæ eru færri íbúðir vannýttar í þéttbýli, eða á bilinu 65-213 sem samsvarar um 1-5% allra fullbúinna íbúða í sveitarfélaginu,“ segir í skýrslunni.

Á landsbyggðinni eru flestar vannýttar íbúðir í Árborg, Fjallabyggð og Vestmannaeyjabæ.

Gildum leigusamningum fjölgaði um 1.186 í september en vísitala leiguverðs stóð í stað milli mánaða. Markaðsleiga hefur hækkað hraðar en önnur leiga og þá eru fermetrarnir dýrastir í Vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur.

Hér má finna skýrslu HMS.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×