Framúrskarandi fyrirtæki

Sam­ræmd upp­lýsinga­gjöf um sjálfbærni fyrir­tækja

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Reynir Smári Atlason forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo.
Reynir Smári Atlason forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo.

Sjálfbærni er ekki lengur aukaatriði í íslensku viðskiptalífi. Áhersla á gagnsæi sjálfbærniupplýsinga hefur aukist undanfarin ár í takt við aukna eftirspurn eftir sjálfbærniupplýsingum fyrirtækja.

Regluverkið þéttist 

Undanfarin ár hefur Evrópusambandið sett á fót nokkurn fjölda reglugerða um upplýsingagjöf á sjálfbærniþáttum sem innleiddar hafa verið hér á landi að hluta. Þar á meðal EU Taxonomy - reglugerð um skýra flokkun á því hvaða atvinnustarfsemi stuðlar að sjálfbærni, ásamt SFDR og CSRD, reglugerðir sem miða að því að samræma sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja innan og utan fjármálakerfisins. Kröfur hafa einnig komið frá Evrópska bankaeftirlitinu um innleiðingu á loftslagsáhættumati á eignasöfn svo eitthvað sé nefnt. Evrópusambandið og tengdar stofnanir hafa því lagt línurnar hvernig upplýsingagjöf skuli háttað og af hverjum.

Sjálfbærnigögn á einum stað

Creditinfo tók af skarið og hefur safnað sjálfbærniupplýsingum allra íslenskra fyrirtækja síðustu þrjú ár í gagnagrunn, eftir að hafa þróað Veru, sérstakt viðmót og vettvang fyrir sjálfbærniupplýsingar íslenskra fyrirtækja. Þannig er hægt að nálgast öll nauðsynleg gögn á einum stað í stað þess að sækja þau til hvers fyrirtækis fyrir sig.

„Þegar ég starfaði sjálfur í fjármálakerfinu sá ég hversu flókið og tímafrekt var að fá aðgengi að sjálfbærniupplýsingum og allur gangur var á því hvernig fyrirtæki settu þessar upplýsingar fram. Aðgengi að þessum upplýsingum var því mikill hausverkur, gögnin voru víðs vegar og á mismunandi sniði. Þegar ég kom til Creditinfo fékk ég tækifæri til koma að þróun lausnar til að leysa þetta vandamál. Ég hafði upplifað vesenið á eigin skinni," segir Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo.

„Það var ákveðin óreiða í uppsiglingu í íslensku atvinnulífi, fjármálafyrirtækin og stærstu fyrirtæki landsins voru farin að senda út sína eigin spurningalista til að kalla eftir upplýsingum og fyrirtækin fengu í sumum tilvikum fjöldan allan af slíkum listum með svipuðum spurningum.

Við ákváðum að bregðast við því með einni miðlægri lausn sem felur í sér sameiginlegan spurningalista og miðlægan gagnagrunn þar sem fyrirtækin skila upplýsingum. Þetta sparar tíma, kostnað og dregur úr álagi á bæði fyrirtækin sjálf og bankana.“

„Við viljum vera miðpunktur sjálfbærniupplýsinga. Við fylgjumst með breytingum á reglugerðum og aðlögum okkar lausn svo auðveldara sé fyrir fjármálafyrirtækin að uppfylla kröfur,“ segir Reynir, Vera stuðli að betra samræmi í gögnum og auki gæði þeirra upplýsinga sem liggja til grundvallar ákvörðunum, t.d. vegna útlána eða fjárfestinga.

Íslensk fyrirtæki framarlega þegar kemur að sjálfbærnistefu

Í árlegri úttekt sinni á Framúrskarandi fyrirtækjum hefur Creditinfo lagt sérstaka áherslu á sjálfbærni og þurfa stærstu fyrirtækin, eða þau sem velta tveimur milljörðum og yfir á ári, að svara spurningalista til að teljast Framúrskarandi fyrirtæki.

Reynir Smári segir markmiðið ekki aðeins að safna gögnum heldur að miðla þeim til þeirra sem gagnanna óska og með því lágmarka áreiti á fyrirtæki og þeirra starfsfólk. Hann segir íslensk fyrirtæki almennt meðvituð um sín áhrif, enda þekki þau sinn rekstur best og geta veitt viðeigandi upplýsingar þegar eftir þeim er kallað.

„Íslensk fyrirtækin eru að massa þetta. Stærstu fyritækin eru mjög framarlega og með þennan málaflokk í mjög góðri stjórn, sérstaklega bankarnir.

„Það má segja að íslenska fjármálakerfið hafði í raun tekið sjálfbærnimálin í gegn hjá sér töluvert áður en regluverksþungi fór að aukast,” segir Reynir og telur svokallaðan grænþvott ekki algengan hér á landi.

„Hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum hef ég ekki orðið var við grænþvott, enda er upplýsingagjöfin til fyrirmyndar og oft kannski frekar of mikil. Sama með stóru fyrirtækin, þar er upplýsingagjöfin til fyrirmyndar. Það má kannski frekar spyrja sig hvort ferlar innanhúss séu alltaf að fylgja stefnum. Þar væri kannski helst brotalamir að finna.“

Íslensk þekking fer á flug

Creditinfo starfar í yfir 30 löndum en Creditinfo á Íslandi tók af skarið með miðlægan gagnagrunn sjálfbærniupplýsinga. Nú er Vera komin í notkun í Eystrasaltsríkjunum þar sem hún hefur fengið nafnið Baltic ESG Hub.

„Þegar við höfðum komið Veru á laggirnar hér áttum við samtöl við viðskiptavini í Evrópu og sáum að þar raungerðist það sem við óttuðumst að myndi gerast hérlendis, bankarnir voru tengdir inn í mismunandi gagnagrunna og eyddu gífurlegum tíma og fjármagni í að viðhalda þeim og vinna gögnin hjá sér. Við sáum því tækifæri til að koma inn á markaði í Eystrasaltinu með sambærilega vöru og við höfum ýtt úr vör á Íslandi," útskýrir Reynir.

Þessi grein er hluti af samstarfi Sýnar og Creditinfo um Framúrskarandi fyrirtæki






Fleiri fréttir

Sjá meira


×