Handbolti

Anton og Jónas á­fram fasta­gestir á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson mynda fremsta dómarapar Íslands.
Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson mynda fremsta dómarapar Íslands. Vísir/Vilhelm

Strákarnir okkar í íslenska handboltalandsliðinu verða ekki einu Íslendingarnir á EM í janúar næstkomandi. Nú er ljóst að þeir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson verða í hópi þeirra dómarapara sem EHF, Handknattleikssamband Evrópu, treystir til að sjá um dómgæsluna á mótinu.

Þeir Anton og Jónas þekkja það vel að taka að sér stór verkefni fyrir EHF, hvort sem er á stórmótum eða í Meistaradeild Evrópu þar sem þeir dæmdu til að mynda undanúrslitaleik á síðustu leiktíð.

Þetta verður fimmta Evrópumót karla sem Anton dæmir á og fjórða Evrópumótið í röð sem þeir Jónas dæma saman á. Áður hafði Anton dæmt á EM karla 2012 með Hlyni Leifssyni.

Alls hafa átján dómarapör verið valin til að dæma á EM í janúar en mótið fer fram í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, frá 15. janúar til 1. febrúar. Spánn og Norður-Makedónía eru einu löndin sem eiga tvö pör á mótinu.

Til viðbótar við íslenska landsliðið og nú dómarana Anton og Jónas verða auðvitað fjölmargir íslenskir stuðningsmenn á EM, sem og þjálfararnir Alfreð Gíslason og Dagur Sigurðsson með lið Þýskalands og Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×