Innherjamolar

Brim kaupir allt hluta­fé í Lýsi fyrir þrjá­tíu milljarða króna

Hörður Ægisson skrifar

Búið er að samþykkja kauptilboð sjávarútvegsfyrirtækisins Brim í alla hluti Lýsi fyrir samtals þrjátíu milljarða króna sé miðað við heildarvirði félagsins. Forstjóri og aðaleigandi Brims sér mikil sóknarfæri í því fyrir fyrirtækið að færa sig lengra í virðiskeðju sjávarafurða.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar í kvöld kemur fram að kaupin séu með fyrirvara um samþykki stjórna félaganna, hluthafafundar Brims og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Frá heildarkaupverðinu upp á 30 milljarða dragast vaxtaberandi skuldir Lýsis, sem námu tæplega 5,3 milljörðum króna um mitt þetta ár, og miðað við það er hlutafjárvirði fyrirtækisins í viðskiptunum um 24,7 milljarðar króna. Kaupverðið mun greiðast til helminga með reiðufé og bréfum í Brim þar sem miðað verður við dagslokagengi félagsins í gær upp á 63 krónur á hlut.

Aðilar sjá mikil samlegðar- og sóknarfæri til að efla hráefnisstöðu Lýsis og fyrir Brim að færa sig lengra í virðiskeðju sjávarafurða.

Aðaleigandi Brims er sem kunnugt er félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra með um 44 prósenta eignarhlut.

Sé horft til virðis þeirra bréfa í Brim sem hluthafar Lýsis munu eignast í félaginu, eða fyrir um 12,4 milljarða króna, þá jafngildir það liðlega tíu prósenta eignarhlut í sjávarútvegsfyrirtækinu. Markaðsvirði þess í dag er rétt ríflega 120 milljarðar króna en hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um átján prósent á síðustu tólf mánuðum.

Fram kemur í tilkynningunni að aðilar sjái „mikil samlegðar- og sóknarfæri til að efla hráefnisstöðu Lýsis og fyrir Brim að færa sig lengra í virðiskeðju sjávarafurða.“

Katrín Pétursdóttir er forstjóri og stærsti hluthafi Lýsis.

Í fyrra nam heildarvelta Lýsis um 22 milljörðum króna og jókst um 22 prósent frá fyrra ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var um 3,1 milljarður á meðan heildarhagnaðurinn eftir skatta var um 930 milljónir.

Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, er stærsti einstaki hluthafi félagsins með um 41 prósent hlut, samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins, en aðrir helstu hluthafar eru Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og Erla Katrín Jónsdóttir.

Helstu afurðir Lýsis eru þorskalýsi, omega-3 lýsi, túnfisklýsi, laxalýsi og þykkni. Magnvörur eru í kringum 68 prósent, neytendavörur um 26 prósent, þurrkaðar og aðrar afurðir um 6 prósent. Um 95 prósent af sölu er útflutningur og afurðir eru seldar um allan heim. Neytendavörur eru fluttar út til um 30 landa og magnvörur til um 70 landa í öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu.


Tengdar fréttir

Hækkun veiði­gjalda mun setja „tölu­verða pressu“ á fram­legðar­hlut­fall Brims

Áhrifin af hækkun veiðigjalda munu þýða að EBITDA-hlutfall Brims lækkar nokkuð á komandi árum og nálgast um fimmtán prósent, samkvæmt nýrri verðmatsgreiningu á félaginu, en líklegt er að stjórnendum takist smám saman að snúa við þeirri þróun með markvissum hagræðingaraðgerðum. Með auknum veiðigjöldum, hækkandi kolefnissköttum og skerðingum í aflamarkaði þá kæmi ekki á óvart ef eldri og óhagkvæmari skipum yrði lagt innan fárra ára.




Innherjamolar

Sjá meira


×