Umræðan

T+1 fram­undan í Evrópu. Er ís­lenski markaðurinn til­búinn?

Þóra Björk Smith skrifar

Verslun og viðskipti með ýmsa vöru og þjónustu á internetinu er nokkuð skilvirk og yfirleitt er lítið mál að panta vöru eins og til dæmis skó og fá þá afhenta samdægurs. Ef þú ætlar hins vegar að fjárfesta í hlutabréfum skóframleiðandans, færðu þau ekki afhent fyrr en tveimur dögum eftir kaupin. Þetta er vegna þess að staðlað uppgjör verðbréfaviðskipta bæði hér á landi og í Evrópu fer fram tveimur dögum eftir að viðskipti hafa farið fram, eða á svokölluðu „T+2“ (Tveir virkir dagar eftir viðskiptadag). Þessu stendur til að breyta og því eru markaðsaðilar í Evrópu í óðaönn að undirbúa sig undir styttingu á verðbréfuppgjöri, úr tveimur dögum í einn, eða í „T+1“.

Styttri uppgjörstími eykur skilvirkni, stuðlar að samþættingu og styður þannig við markmið ESB um samræmingu á eftirviðskiptamarkaði (e. post-trade). Breytingin mun þó hafa í för með sér ýmsar áskoranir fyrir markaðsaðila (m.a. fjármálafyrirtæki) sem munu hafa styttri tíma til að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir, svo sem að fjárhæð í réttum gjaldmiðli sé tiltæk til að hægt sé að ganga frá skuldbindingunni.

Í Evrópu starfar fjöldinn allur af kauphöllum, miðlægum mótaðilum, uppgjörshúsum og verðbréfamiðstöðvum, að einhverju leyti á grundvelli mismunandi verklags og löggjafar, þrátt fyrir að talsverð samræming hafi átt sér stað.

Flækjustigið í verðbréfauppgjöri er töluvert. Það endurspeglast í undirbúningstímanum sem ESMA (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið) hefur gefið markaðsaðilum til aðlögunar áður en styttingin tekur gildi eða heil 3 ár. Áætluð innleiðing er 11. október 2027, en þá verður uppgjör hlutabréfaviðskipta samræmt uppgjörstíma í Bandaríkjunum, þar sem hann var styttur í einn dag vorið 2024.

Hvað er svona flókið?

Almennt er talið að stytting uppgjörstímans í Evrópu verði talsvert flóknara verkefni heldur en í Bandaríkjunum, þar sem uppgjör fer fram í einni mynt og í einni verðbréfamiðstöð sem m.a. gerir uppgjörsfyrirkomulagið einfaldara og skilvirkara. En líta þarf til fleiri þátta en bara sjálfs verðbréfauppgjörsins, því skilvirkni verðbréfamarkaða er líka háð þátttakendum á markaði. Mikið púður hefur verið sett í að greina og laga brotalamir í eftirviðskiptaumhverfi fjármálamarkaða í Evrópu (t.d. CMU, SIU og yfirgripsmikil skýrsla hagfræðingsins Mario Draghi um samkeppnishæfni Evrópu) en markmiðið er m.a. að færa eftirviðskiptamarkaðinn á þann stað að það styðji við samkeppnishæfni álfunnar. Þegar hafa fjölmörg skref verið stigin, en betur má ef duga skal. Í Evrópu starfar fjöldinn allur af kauphöllum, miðlægum mótaðilum, uppgjörshúsum og verðbréfamiðstöðvum, að einhverju leyti á grundvelli mismunandi verklags og löggjafar, þrátt fyrir að talsverð samræming hafi átt sér stað.

Hver er staðan á íslenska verðbréfamarkaðnum?

Á þeim stutta tíma síðan skipt var um kerfi þeirra fjármálainnviða sem eru skilgreindir sem kerfislega mikilvægir (Millibankakerfi Seðlabanka Íslands (MBK) og verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar) hefur flest séríslenskt verklag verið aflagt sem gerir íslenskan verðbréfamarkað betur í stakk búinn til að takast á við innleiðingar á nauðsynlegum breytingum eins og styttri uppgjörstíma.

Það er afar mikilvægt að uppgjörstími á íslenska markaðnum fylgi erlendu fordæmi, ekki síst vegna þeirra mörgu tvískráðu félaga sem Nasdaq er að þjónusta. Líklega er hægt að stytta verðbréfauppgjör í T+1 á íslenska markaðnum með tiltölulega stuttum fyrirvara og án þess að ráðast þurfi í miklar breytingar á uppgjörskerfum og framkvæmd. Einhverjar aðlaganir eru þó nauðsynlegar ef viðhalda á góðum árangri markaðarins að gera upp viðskipti á réttum tíma.

Markaðsaðilar þurfa því að skoða vel framkvæmd og uppgjör viðskipta með íslenskar krónur svo hægt verði að eiga viðskipti með þær samdægurs og meta þarf hvort lengja þurfi opnunartíma uppgjörskerfa svo eitthvað sé nefnt.

Styttingin hefur áhrif á alla aðila í uppgjörskeðjunni. Uppgjörsfyrirmæli þurfa helst að liggja fyrir þegar viðskipti eiga sér stað og stöðlun þeirra verður mikilvægari en fyrr. Tíminn sem markaðsaðilar hafa til bregðast við og uppfæra röng uppgjörsfyrirmæli, koma verðbréfum á réttan stað og útvega sér nægt fjármagn til að uppfylla skyldur sínar styttist um heilan sólarhring og því mun þessi stytting nú hafa meiri áhrif en þegar uppgjörshringnum var síðast breytt árið 2014. Markaðsaðilar þurfa því að skoða vel framkvæmd og uppgjör viðskipta með íslenskar krónur svo hægt verði að eiga viðskipti með þær samdægurs og meta þarf hvort lengja þurfi opnunartíma uppgjörskerfa svo eitthvað sé nefnt.

Í júní birtu samstarfsnefndir í Evrópu tilmæli til markaðsaðila til að aðstoða þá í að undirbúa styttingu á uppgjörshringnum. Mikilvægt er að hver og einn aðili nýti tímann vel, skoði sína ferla og meti út frá því hvort nauðsynlegt sé að ráðast í breytingar, t.d. auka sjálfvirkni eða innleiða breytingar á kerfum svo stytting á uppgjörstímanum gangi snurðulaust fyrir sig.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. 






×