Viðskipti erlent

Breytingar hjá Microsoft koma fyrir­tækinu hjá sektum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Microsoft virðist hafa komist sér undan umtalsverðum sektum.
Microsoft virðist hafa komist sér undan umtalsverðum sektum. Getty

Bandaríska tæknifyrirtækið Microsoft hyggst aðskilja samskiptaforritið Teams frá Office-hugbúnaðinum og selja þau hvort í sínu lagi. Með þessu leitast fyrirtækið við að komast hjá háum sektum sem Evrópusambandið hafði í hótunum á grundvelli samkeppnisreglna.

Málið á rætur að rekja til kvörtunar frá Slack, sem nú er í eigu Salesforce. Fyrirtækið taldi Microsoft misnota markaðsstöðu sína með því að binda Teams við Office-pakkann og bjóða notendum ekki annan valkost. Þýska fyrirtækið Alfaview sendi einnig inn sambærilega kvörtun.

Eftir rannsókn komst framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að þeirri niðurstöðu að Microsoft hefði veitt Teams ósanngjarnt forskot með þessari samkeyrslu. Með því hefði samkeppni á markaði fyrir skýjabundin samskipta- og samvinnuforrit verið skert, þar sem Teams var boðið með vinsælum forritum á borð við Word, Excel, PowerPoint og Outlook.

Sektir hefðu getað numið himinháum upphæðum en samkvæmt Reuters hefur Microsoft nú samþykkt tilslakanir sem fela meðal annars í sér að Office verði boðið án Teams á lægra verði. Þannig er talið að fyrirtækið komist hjá frekari refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×